Háskóli Íslands

Starfsemin

 

Hér er hægt að kynna sér allar fundargerðir Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr frá því starfsemi hennar hófst í desember 2009 og til júní 2015.

 

Fundargerð 2. fundar

Ár 2009, 1. desember, var haldinn 2. fundur stjórnar Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni (RÁS). Fundurinn var haldinn í fundarherbergi á 4. hæð í Lögbergi og hófst kl. 12.10. Viðstödd voru þá; Hrefna Friðriksdóttir, Erla Kolbrún Svavarsdóttir, Guðrún Kristinsdóttir,Vilhjálmur Árnason og Þórhildur Líndal sem ritaði fundargerð. Sigrún Júlíusdóttir mætti á fundinn kl. 13.00.

 Þetta gerðist:

 1. Eftirfarandi gögn voru lögð fram:

*fundargerð 1. stjórnarfundar frá 17. september sl.  Samþykkt.

*drög að erindisbréfi fyrir forstöðumann RÁS, tvær orðalagsbreytingar samþykktar. Formanni falið að ganga frá endanlegri gerð bréfsins.

*drög að samkomulagi lagadeildar HÍ og Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um  fjölskyldumálefni.  Samþykkt að fela formanni að ganga frá samkomulaginu fyrir hönd RÁS.

*drög að fjárhagsáætlun RÁS fyrir árið 2010.  Fjárveiting nemur kr. 3.000.000., að viðbættum styrk frá lagadeild samkvæmt sérstöku samkomulagi, kr. 500.000.

 

2.  Heimsókn – gestur fundarins.

Kl. 12.30 mætti á fundinn dr. juris. Ármann Snævarr.  Áður en Ármanni var gefið orðið fór Þórhildur yfir hennar sýn á hlutverk RÁS í nánustu framtíð og benti m.a. á mikilvægi þess að rannsóknir í fjölskyldumálefnum yrðu undirstaða lagasetningar, sem og stjórnvaldsákvarðana.  Því væri nauðsynlegt að kynna vel allar niðurstöður og vera í góðu samstarfi við stjórnvöld. Hún varpaði fram þeirri hugmynd að e.t.v. væri mögulegt að kom á formlegu sambandi RÁS og Alþingis í þessum málaflokki.

Í máli Ármanns kom m.a. fram að í bókagjöfinni sem hann hefur gefið til RÁS er að finna mikið af grundvallarritum fjölskylduréttarins og einnig kom fram að hann stefnir á, að gjöfin hafi að geyma nýjustu útgáfur af þeim fræðiritum.  Hann tók undir með Þórhildi að rannsóknir um fjölskyldumálefni ættu að verða í meira mæli en verið hefur grundvöllur löggjafar varðandi þau mál.  Ennfremur þyrfti að gera „hreinar“ vísindalegar rannsóknir á þverfræðilegum grunni og nefndi sem dæmi í því sambandi hagsögulegar og tölfræðilegar rannsóknir, sem gerðar hafa verið á undangengnum árum. Þá lagði hann áherslu á mikilvægi þess að RÁS komi upplýsingum á framfæri milli fagsviða um rannsóknarefni svo ekki væri hætta á óeðlilegum fræðilegum árekstrum og jafnframt ætti  að miðla sérþekkingu til þeirra.  Þá vitnaði hann til bókar sinnar um Hjúskapar- og sambúðarrétt frá árinu 2008 (bls.853), en þar er að finna samandregin atriði, sem hann telur mikilvægt að líta til við endurskoðun hjúskaparlaganna. Hann lagði ennfremur áherslu á að óvígð sambúð væri verðugt rannsóknarverkefni (sjá nánar bls. 953 í nefndri bók).  

Jafnframt gat hann þess  að þýðingarmikið væri að RÁS beitti sér fyrir norrænni samvinnu og yrði sömuleiðis í góðu sambandi við þau ráðuneyti hér á landi, sem fjalla um fjölskyldumálefni, á einn eða annan hátt.

Ármann sagði fjölmörg áhugaverð verkefni bíða rannsóknar á sviði fjölskylduréttarins og nefndi í því sambandi hugtök eins og séreign, kaupmála, hjúskap, sambúð vígða og óvígða.  Þetta væru kjörin verkefni fyrir meistara- og/eða doktorsnema.  Þá þyrfti að rannsaka sérstaklega fjölskylduhugtakið. Loks rifjaði hann upp ýmsa norræna sjóði, s.s. Nova og Letterstedska fonden og sjóð Selmu og Kaj Langevad, sem e.t.v. væri hægt að leita til.

Að loknu máli Ármanns hófust almennar umræður og kom þar margt fróðlegt fram, m.a. var sagt frá ýmsum norrænum og innlendum rannsóknum, sem eru í gangi.  Rætt um hugsanlegar málstofur og ráðstefnur á vegum RÁS, t.d. um hlutverk foreldra sem uppalenda – reglur um foreldrafærni, ný barnalög og fleira.  Á vegum félagsráðgjafardeildar stendur fyrir dyrum ráðstefna um réttarstöðu barna, sem RÁS gæti átt aðild að í ljósi hins þverfræðilega vettvangs sem stofnuninni er ætlað að vinna á.

 

3.  Önnur mál.

Rætt um hina ýmsu sjóði, sem unnt væri að leita til vegna verkefna RÁS. Þórhildi falið taka saman yfirlit yfir sjóði fyrir næsta stjórnarfund.

Rætt um að fá yfirlit yfir Rannsóknastofnanir, rannsóknastofur og rannsóknasetur á vegum HÍ, sem eru að vinna viðfjölskyldumálefni - hvaða rannsóknir eru í gangi og hverjir eru rannsakendur. Þórhildi falið að útbúa slíkt yfirlit fyrir næsta stjórnarfund.

Ákveðið að næsti fundur verði mánudaginn 18. janúar 2010 kl. 12.00 á sama stað.

 Fundi slitið kl. 14.40

 

 Hrefna Friðriksdóttir

formaður (sign)

 Erla Kolbrún Svavarsdóttir ( sign)   Guðrún Kristinsdóttir (sign)

 Sigrún Júlíusdóttir (sign)             Vilhjálmur Árnason (sign)

 


 

Fundargerð 3. fundar

Ár 2010, 18. janúar, var haldinn 3. fundur stjórnar Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni (RÁS). Fundurinn var haldinn í fundarherbergi á 4. hæð í Lögbergi og hófst kl. 12.10. Viðstödd voru; Hrefna Friðriksdóttir, Erla Kolbrún Svavarsdóttir, Guðrún Kristinsdóttir, Sigrún Júlíusdóttir, Vilhjálmur Árnason og Þórhildur Líndal sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist helst:

 

 1. 1.       Fundargerð frá 1. des. sl. lögð fram

Fundargerðin var samþykkt með tveimur orðalagsbreytingum, þ.e.: í stað orðsins ráðstefna á bls. 2 kemur orðið málstofuröð og orðið reglur fyrir framan orðin um foreldrafærni fellur niður á sömu bls.

 

 1. 2.       Yfirlit yfir rannsóknastofnanir, rannsóknastofur og rannsóknasetur innan Háskóla Ísland

ÞL fór yfir samantekt á rannsóknastofnunum við HÍ, sem byggja á reglum samþykktum af háskólaráði, sbr. framlagt minnisblað, dags. 15.12.09. Einnig var farið sérstaklega yfir rannsóknastofur og rannsóknasetur, sem heyra annars vegar undir Félagsvísindastofnun, og hins vegar undir Menntavísindasvið. Þessar samantektir byggja á upplýsingum af heimasíðu háskólans.   

 

EKS upplýsti að ný rannsóknastofnun hefði tekið til starfa í síðustu viku innan Heilbrigðisvísindasviðs. Þá gat hún um rannsóknastofur í næringarfræði, öldrunarfræði og um lýðheilsuvísindi. VÁ sagði að nú heyrðu Guðfræðistofnun og Siðfræðistofnun undir Hugvísindastofnun. GK upplýsti að Rannsóknasetrið: Lífshættir barna og ungmenna, heyrði nú undir Menntavísindasvið, sem og Rannsóknarstofa um menntakerfi og Rannsóknasetur um kennarastarfið og skólaþróun. SJ upplýsti að á síðasta ári hefði nafni RBF verið breytt úr

Rannsóknasetri í Rannsóknastofnun.

 

ÞL greindi ennfremur frá því að sent hafi verið sérstakt erindi, dags. 21. des. 2009, frá stofnuninni til 15 aðila innan HÍ, þar sem óskað var upplýsinga um fjölskyldurannsóknir hjá hlutaðeigandi, hvort einhverjar rannsóknir væru í gangi, sem féllu að 2. gr. reglna nr. 570/2009, hvert væri í stuttu máli viðfangsefni þeirra og hverjir væru rannsakendur. Einnig var óskað eftir sömu upplýsingum um niðurstöður fyrirliggjandi rannsókna. Svör hafa borist frá þremur aðilum.

 

ÞL mun ítreka erindið við þá sem enn hafa ekki svarað.

 

 1. 3.       Yfirlit yfir rannsóknasjóði/styrktarsjóði, innanlands og erlendis

ÞL gerði grein fyrir yfirlitinu,sbr. minnisblað dags. 18.01.10, en upplýsingarnar erlendis frá voru aðallega fengnar frá Elviru Mendez Pinedo kennara í Evrópurétti við lagadeild HÍ. ÞL hafði bætt inn upplýsingum um nokkra íslenska sjóði, s. s. Velferðarsjóð barna og Forvarna- og framfarasjóð Rvíkurborgar. HF benti til viðbótar á styrktarsjóð Bjarna Benediktssonar, sem er á vegum RANNÍS. 

 

ÞL mun halda áfram að afla upplýsinga um hina ýmsu sjóði og m.a. kanna hvort ráðuneytin séu með einhverja styrki sem RÁS gæti hugsanlega sótt um. Þá þarf að hafa upp á norrænum sjóðum, sbr. m. a. það sem fram kom í máli Ármanns Snævarr á stjórnarfundi 1. des. sl.

 

 1. 4.       Frumdrög að framkvæmdaáætlun 2010, dags. 18.01.10
  1. Kynning á stofnuninni
  2. ÞL gerði grein fyrir hugmyndum varðandi kynningu á stofnuninni, sbr. framlagt skjal þar um.

       Stjórnin samþykkti að haldið yrði áfram á þeirri braut sem hugmyndirnar fælu í sér.

 

 1. Ráðstefna um fjölskylduna í samstarfi við Lagastofnun og e.t.v. fleiri. 

Hugtakið fjölskylda skoðað út frá mismunandi sjónarhóli, þ.e. félagsvísinda, menntavísinda, heilbrigðisvísinda og siðferðis. Kanna þarf hvort unnt er að halda ráðstefnuna fyrstu vikuna í mars nk., þar sem stjórnarmenn verða þá allir á landinu. Ýmsar hugmyndir komu fram um form og efni ráðstefnunnar og ýmislegt rætt.

HF og ÞL falið að útfæra framlagða hugmynd frekar.

 

SJ vék af fundi kl. 13.05

 

 1. d.      Rannsóknir stofnunarinnar og samstarfsaðila.

Stefnt að rannsókn á einelti. Í því sambandi greindi ÞL frá fundum sínum með Helgu Brá Árnadóttur á skrifstofu rektors/markaðsskrifstofu HÍ vegna styrktarsjóðs Margretar og Bents Scheving Thorsteinsson v. einelti. ÞL kvaðst einnig hafa átt fund vegna þessa með Guðnýju Eydal prófessor í félagsráðgjafardeild og á næstunni væri fyrirhugaður fundur með Þorláki Helgasyni, verkefnisstjóra Olweusarverkefnisins. Þá væri Vanda Sigurgeirsdóttir áhugasöm um, að koma að verkefninu f.h. Menntavísindasviðs. Hugmynd að rannsóknarvinnunni var reifuð á fundinum, en hún gerir ráð fyrir að niðurstöður liggi fyrir haustið 2011.

Stjórnin heimilaði HF og ÞL að sækja um styrk í ofangreindan sjóð.

 1. Málstofur: „Efst á baugi“. Í frumdrögum að framkvæmdaáætlun RÁS er gerð tillaga um að haldnar verði málstofur á vegum stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir að boðað verði til þeirra, t.d. þegar eitthvert málefni varðandi fjölskylduna er ofarlega á baugi í þjóðfélaginu, sem og þegar ný löggjöf er í sjónmáli sem varðar fjölskylduna á einn eða annan hátt. 

Stjórnin samþykkti að HF og ÞL gætu boðað til ofangreindra hádegismálstofa eftir þörfum.

 1. Útgáfa. Stefnt skal að því að gefa út erindi sem flutt verða á ráðstefnunni og  væntanlegum málstofum, rafrænt eða í bókarformi.

 Þessi liður var ekki ræddur sérstaklega      

 

 1. Önnur mál.

HF greindi frá erindi sem barst frá dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu, 14. þessa mánaðar, þar sem fram kemur sú hugmynd að fá RÁS til að vinna að gerð frumvarps  til breytinga á gildandi hjúskaparlögum.

 

Stjórnin fagnaði þessu erindi og ÞL og HF var falið að ganga frá samningi um þetta verk ef umsemdist.

Ákveðið að næsti fundur verði miðvikudaginn 17. febrúar á sama stað kl. 12.00

Fundi slitið kl. 14.00.

Hrefna Friðriksdóttir (sign)

Erla Kolbrún Svavarsdóttir (sign),  Sigrún Júlíusdóttir (sign)Guðrún Kristinsdóttir (sign)  Vilhjálmur Árnason (sign)

 

Fundargerð 4. fundar

Ár 2010, 17. febrúar, var haldinn 4. fundur stjórnar Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni (RÁS). Fundurinn var haldinn í fundarherbergi á 4. hæð í Lögbergi og hófst kl. 12.00. Viðstödd voru; Hrefna Friðriksdóttir, Guðrún Kristinsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Þórhildur Líndal sem ritaði fundargerð. Sigrún Júlíusdóttir og Erla Kolbrún Svavarsdóttir höfðu boðað forföll.

 

Þetta gerðist helst:

 

Áður en gengið var til boðaðrar dagskrár minntist formaðurinn, dr. juris. Ármanns Snævarr prófessor, sem lést hinn 15. febr. sl., á 91. aldursári. Rannsóknastofnunin sendir eiginkonu hans, frú Valborgu Snævarr og fjölskyldu þeirra Ármanns, einlægar samúðarkveðjur. Til að votta honum virðingu sína og þakklæti, var ákveðið að stofnunin ásamt lagadeild Háskóla Íslands sendi blómsveig vegna útfarar hans, væntanlega í næstu viku.

 

Dagskrá fundarins:

1.      

Fundargerð frá 18. jan. sl. lögð fram.

Í stað orðanna: til stæði undir 2. tölul. voru sett orðin nú heyrðu Guðfræðistofnun og Siðfræðistofnun undir .... Fundargerðin var samþykkt þannig orðuð af þeim stjórnarmönnum sem sóttu fundinn. Undirritun bíður næsta stjórnarfundar.

 

2.      

Rannsókn á einelti

ÞL gerði grein fyrir stöðu mála, en af hálfu RÁS hafa verið send drög að rannsóknaráætlun - út frá sjónarhóli lögfræðinnar - til Guðnýjar Eydal í félagsráðgjafardeild og Vöndu Sigur-geirsdóttur sem starfar innan Menntavísindasviðs. Þá hefur ÞL verið í sambandi við Helgu Brá Árnadóttur umsjónaraðila styrktarsjóðs Bents og Margretar Sch. Thorsteinson og haldið henni upplýstri um stöðu mála, en fyrirhugað er að sækja um styrk í þann sjóð.

 

3.      

Ráðstefna um fjöskylduna.

Samþykkt var að fresta ráðstefnunni þar til í september nk., vegna stöðu mála í þjóðfélaginu. HF og ÞL munu halda áfram að huga að efni og formi hennar og láta stjórnarmenn fylgjast með framvindunni eftir því sem á líður.

 

4.      

Öflun upplýsinga um rannsóknir innan HÍ

Ítrekunarpóstur var sendur til þeirra, sem ekki höfðu skilað fyrir 15. jan. sl., sbr. erindi frá RÁS, dags. í desember sl.

Viðbrögð hafa orðið við ítrekunarbréfinu frá öllum nema Viðskiptafræðistofnun og nokkrar heimtur orðið, en þess er vænst er að svör hafi borist frá öllum aðilum á næstu vikum. Þá gat ÞL þess að hún hefði vegna þessarar upplýsingaöflunar átt formlega fundi, m.a. með Magnúsi Magnússyni frá Félagsvísindastofnun, Irmu Erlingsdóttur frá RIKK og Ástu Möller frá Stofnun stjórnsýslu og stjórmálafræða.

 

5.      

Önnur mál

HF upplýsti að í nafni RÁS hefðu verið sendar tillögur að fjórum málstofnum á svokölluðum Lagadegi, sem haldinn verður 30. apríl nk., en að honum standa Dómarafélag Íslands, Lögmannafélag Íslands og Lögfræðingafélag Íslands.

 

 

Ákveðið var að næsti stjórnarfundur verði um mánaðamótin ágúst/september nk. Þangað til verði stjórnarmenn í tölvusamskiptum vegna þeirra verkefna sem framundan eru hjá RÁS.

Fundi slitið kl. 13.30.

Hrefna Friðriksdóttir (sign)

Guðrún Kristinsdóttir (sign)                                          Vilhjálmur Árnason (sign)


 

 Fundargerð 5. fundar

Ár 2010, 24. ágúst, var haldinn 5. fundur stjórnar Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni (RÁS). Fundurinn var haldinn í fundarherbergi á 4. hæð í Lögbergi og hófst kl. 12.10. Viðstödd voru; Hrefna Friðriksdóttir, Erla Kolbrún Svavarsdóttir, Guðrún Kristinsdóttir, Vilhjálmur Árnason og Þórhildur Líndal sem ritaði fundargerð. Sigrún Júlíusdóttir boðaði forföll.

Dagskrá fundarins:

1.      

 Fundargerð frá 17. febrúar 2010  

Fundargerð með nokkrum lagfæringum samþykkt og undirrituð.

 

2.      

 Peninga- og bókagjöf frá Bókaútgáfunni Codex/ Bókagjöf Ármanns Snævarr til RÁS

ÞL greindi frá að Codex hefði fært RÁS að gjöf kr. 200. 000 auk allra bóka um lögfræði, sem bókaútgáfan hefur gefið út á undanförnum árum. Bréf hefur verið sent til forsvarsmanna Codex, þar sem þökkuð er höfðingleg gjöf. Af hálfu RÁS hefur verið tekið á móti lagabókum- og ritum á sviði fjölskylduréttar úr safni Ármanns heitins og komið til skráningar hjá Þjóðarbókhlöðu. Bókunum verður að skráningu lokinni fundinn staður í bókasafni lagadeildar í Lögbergi, en merkt sérstaklega, sem eign RÁS. Þakkarbréf hefur verið sent til ekkju Ármanns vegna þessarar mikilsverðu gjafar.

 

3.      

RÁS minnist Ármanns, minningarorð, samúðarkort o.fl.

ÞL greindi frá því að f.h. RÁS hafi HF og ÞL skrifaði minningarorð að Ármanni gengnum, einnig hafi af hálfu Háskóla Íslands, deildarforseti lagadeildar, Björg Thorarensen og háskólarektor, Kristín Ingólfsdóttir, skrifað minningargreinar. Blómvöndur var sendur til fjölskyldunnar ásamt samúðarkorti frá RÁS. Þá hefur RÁS pantað Minningargreinabók,sem hefur að geyma allar minningargreinar og - orð, sem birtust í Morgunblaðinu við andlát Ármanns Snævarr.

 

4.      

Verksamningar við dómsmála- og mannréttindaráðuneytið (2)

HF greindi frá samskiptum við ráðuneytið, en gerðir hafa verið tveir verktakasamningar milli þess og RÁS. Annars vegar vegna ritunar frumvarps til nýrra hjúskaparlaga o.fl (ein hjúskparlög), en þessu verki er þegar lokið af hálfu RÁS. Hins vegar var gerður samningur milli sömu aðila, nú í sumar, um að RÁS ynni skýrslu um ættleiðingarmál. RÁS hefur falið Hrefnu Friðriksdóttur, með sérstökum samningi að vinna það verk, en skilafrestur er 1. nóvember nk.

Stjórnin lýsti sig samþykkt þessu.

 

Á fundinum var ákveðið að að hafa þann hátt á, að stjórnin samþykkti, hverjum yrði falið, hverju sinni, að vinna verk sem RÁS tekur að sér með verktakasamningi við utanaðkomandi aðilia.

 

5.      

 Styrkur til að rannsaka einelti

 ÞL greindi frá því að RÁS í samstarfi við félagsráðgjafardeild og Menntavísindasvið hefði hlotið styrk að fjárhæð kr. 2.200.000 úr sjóði Margaret og Bent Scheving Thorsteinssonar, til að rannsaka á heildstæðan og þverfræðilegan hátt einelti meðal barna, sbr. nánar umsókn dags. 22. mars 2010  og bréf, dags. 12. maí s.á.

Styrkurinn var veittur við hátíðlega athöfn í Norræna húsinu 22. júni 2010. Verkefnisstjórn hittist á fundi 28. s.m. og í framhaldinu var ákveðið að senda út frétt, sem birtist á forsíðu HÍ ásamt auglýsingu um styrk til MA-nema, á sviði lögfræði, félagsráðgjafar og Menntavísindasviðs til að taka þátt í þessu rannsóknarverkefni, þ.á m. með ritun meistararitgerða. Í verkefnisstjórn sitja: Þórhildur Líndal formaður, Hrefna Friðriksdóttir fulltrúi lagadeildar, Halldór Guðmundsson, fulltrúi félagsráðgjafardeildar og Vanda Sigurgeirsdóttir, fulltrúi Menntavísindasviðs. Þrjú þau síðastnefndu verða umsjónarmenn með meistararitgerðum, hver á sínu sviði. Þá situr í verkefnisstjórninni, dr. Brynja Bragadóttir, en hún hefur verið fengin til starfa, sem ráðgefandi sérfræðingur með uppbyggingu og samræmingu þessa þverfræðilega rannsóknarverkefnis.

Þetta rannsóknarverkefni mun fara af stað núna í haust og niðurstöður eiga að liggja fyrir haustið 2011.

 

6.      

 Heiðursrit Ármanns Snævarr

HF og ÞL gerðu grein fyrir stöðu mála, en þær sitja báðar í ritnefnd ásamt Valborgu Snævarr.

Gerður hefur verið munnlegur samningur við Bókaútgáfuna Codex um útgáfu bókarinnar, ásamt prófarkalestri,  sem og söfnun í Tabula in honorem með aðstoð frá RÁS. Talsvert  var rætt um ritrýni greinanna, en nú eru matsreglur þannig að tveir ritrýnar þurfa að koma að hverri grein. EKS kom með þá hugmynd að unnt væri að leita til höfundanna sjálfra og óska eftir að þeir nefndu nokkur nöfn sem ritrýnt gætu þeirra greinar. Þá er einnig spurning um að ritstýra greinum. Ritnefndin ákveður þetta endanlega í  samvinnu við BC.

 

Nú liggur fyrir að um 30 höfundar hafa þegið boð um að skrifa grein í áðurgreint rit, þar af fjórir frá Norðurlöndum – leiðbeiningar frá Bókaútgáfunni Codex um uppsetningu og frágang hafa verið sendar til hlutaðeigandi, en skilafrestur greina er 1. október nk. VÁ taldi mikilvægt að fá uppgefið hve mörg orð (word count) greinin mætti vera. Giskað var á að um væri að ræða 7.500 orð, letrið skal vera Times Roman, sbr. nánar leiðbeiningar frá BC.

 

ÞL dreifði á fundinum samantekt frá ágúst 2010 yfir nöfn höfunda og viðfangsefni þeirra.

 

7.      

Ráðstefna um fjölskylduna

ÞL lagði fram minnisblað,dags. 31. maí 2010, þar sem gerð er tlilaga að ráðstefnu um fjölskylduna, en nú er stefnt að því að halda hana föstudaginn 17. september nk.

Talsverðar umræður urðu um tillöguna og framkvæmd hennar.

Niðurstaðan varð sú að í stað þess að stjórnarmenn sjálfir væru með innlegg í upphafi ráðstefnunnar þá yrðu þeir umræðustjórar á hringborðum, þar sem fram færi samtal milli fræðimanna og stúdenta. Til að vera með inngangserindi/hugleiðingu um fjölskylduna yrðu fengnir, í stað stjórnarmanna sjálfra, forsetar sviðs/deilda, sem tilnefndu fulltrúa í stjórn RÁS. Einnig voru nefndir utanaðkomandi einstakllingar í ýmsum trúnaðarstörfum.

Frekari umræðu frestað og ákveðið að halda stjórnarfund, þriðjudaginn 31. ágúst á sama stað    kl. 11.30 og ljúka þá við fyrirliggjandi dagskrá. Einnig var ákveðið að finna fundardag og - tíma fyrir næstu fundi stjórnar.

 

Fundi slitið kl. 14.10.

Hrefna Friðriksdóttir formaður  (sign)

Erla Kolbrún Svavarsdóttir    Guðrún Kristinsdóttir   (sign)          Vilhjálmur Árnason (sign)

 

 

Fundargerð 6. fundar

Ár 2010, 2. september, var haldinn 6. fundur stjórnar Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni (RÁS). Fundurinn var haldinn í fundarherbergi á 4. hæð í Lögbergi og hófst kl. 11.30. Viðstödd voru; Hrefna Friðriksdóttir, Guðrún Kristinsdóttir, Sigrún Júlíusdóttir, Vilhjálmur Árnason og Þórhildur Líndal sem ritaði fundargerð. Erla Kolbrún Svavarsdóttir boðaði forföll.

Dagskrá fundarins:

 

 1. 1.  Fundargerð frá 24. ágúst 2010 lögð fram og undirrituð. 

 

 1. 2.  Ráðstefna/málstofa um fjölskyldumálefni

ÞL lagði fram minnisblað, dags. í dag, þar sem er að finna nýjustu drög að tillögu að lokaðri ráðstefnu/málstofu um fjölskylduna, sem haldin verður föstudaginn 17. september nk.

HF reifaði ýmiss atriði sem fram komu á síðasta fundi varðandi skipulag þessarar væntanlegu ráðstefnu/málstofu, þar sem SJúl hafði boðaðforföll á þann fund.

ÞL greindi frá því að Róbert Spanó deildarforseti lagadeildar, Jón Torfi Jónasson, sviðsstjóri Menntavísindasviðs og Sigurður Guðmundsson sviðsforseti Heilbrigðisvísindasviðs hefðu fallist á að vera með ca. 10 mín hugleiðingu um hver væru brýnustu verkefnin í fjölskyldumálefnum út frá sjónarhorni viðkomandi deildar og sviða.

ÞL tók að sér að hafa samband við Guðnýju Eydal, deildarforseta félagsráðgjafardeildar og Ástráð Eysteinsson sviðsforseta Hugvísindasviðs og óska eftir inngangserindum/hugleiðingu frá þeim.  

GKr. tók að sér að útbúa reglur vegna hringborðsumræðna og mun senda  þær stjórnarmönnum. Aðrir stjórnarmenn ætla að senda ÞL upplýsingar um netföng hagsmunafélaga stúdenta innan sinnar deildar/sviðs. Í framhaldinu mun ÞL óska eftir tilnefningu 10 háskólanema frá hverju sviði/deild, samtals 50 háskólanema, til að vera þátttakendur í SAMRÆÐU háskólanema og fræðimanna UM FJÖLSKYLDUMÁLEFNI. Umræðustjórar verða stjórnarmenn RÁS. Stefnt er að byrja SAMRÆÐUNA kl. 13 og ljúka henni kl. 16. ÞL mun kanna hvaða stofur eru á lausu fyrir fund, sem þennan, og tekur að sér að vera fundarstjóri SAMRÆÐUNNAR. GKr lagði til að bjóða ætti ritstjóra Stúdentablaðsins að sitja þennan fund. Stjórnarmenn voru sammála því. ÞL mun boða hann sérstaklega.

 

 1. 3.  Beiðni um samstarf , bréf dags. 12. ágúst 2010, frá Helgu Kristjánsdóttur og Sif Sigfúsdóttur

ÞL kynnti efni bréfsins, en þar kemur m.a. fram að undanfarið eitt og hálft ár hafi rannsóknaraðilar innan HÍ unnið forvinnu að umfangsmiklu fjölskylduverkefni undir heitinu Family Economics og hjá RANNÍS liggi  fyrir ítarleg umsókn um  styrk til þessa verkefnis. Að verkinu komi Gylfi Zoëga PhD, Jens Bonke PhD, Martin Browning PhD, Helga Kristjánsdóttir PhD, Anna Gunnþórsdóttir PhD, Arna Varðardóttir PhD nemi og Sif Sigfúsdóttir PhDnemi. Markmið þessa verkefnis sé „greining á hagfræði heimilisins til að auka velferð barna og fjöskyldna. Áhersla er lögð á greiningu dreifingar launa, neyslu og tímanotkunar íslenskra fjölskyldna. Rannsókni  stuðlar að alþjóðlegum samanburði með nýtingu einstakrar danskrar könnunar frá Jens Bonke, sem mælir neyslu og tímanotkun samtímis hjá sömu fjölskyldu. Rannsóknin gefur færi á verðumætum samanburði íslenskra heimila við önnur norræn heimili.“ Nánari lýsingu á framkvæmd og gildi verkefnisins er að finna í fyrrgreindu bréfi, en í niðurlagi þess segir svo:  „Hér með er óskað eftir að Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni verði þátttakandi í umfangsmiklum spurningalista um fjölskyldumál. Stofnunin gæti þá nýtt sér spurningalistann fyrir rannsóknir en jafnframt verið í sambandi við ofangreinda fræðimenn.  Þá væri einnig verðugt að kanna samstarf um ráðstefnu næsta vor, þar sem megin viðfangsefnið yrði fjölskyldumál.“

HF sagði að margt þyrfti að rannsaka í sambandi við fjármál og fjárskipti hjóna og sambúðarfólks og vísaði m.a. í því sambandi til hugleiðinga í bók Ármanns Snævarr: Hjúskapar- og sambúðarréttur, bls. 859-864. Þvi væri þessi beiðni mjög áhugaverð fyrir RÁS og tóku aðrir stjórnarmenn tóku undir það.

Ákveðið að HF og ÞL hittu Helgu Kristjánsdóttur og Sif Sigfúsdóttur á fundi til að ræða málið nánar, m.a. form og framkvæmd samvinnu. 

4.   Fjármál

ÞL gerði stutta grein fyrir fjárhagsstöðu RÁS.

Árlegt framlag lagadeildar til RÁS í þrjú ár, 2010-2013, kr.  500.000, sbr. sérstakt samkomulag RÁS og lagadeildar, dags. í desember 2009, hefur nú loks verið lagt inn á reikning RÁS.

Eins og áður hefur komið fram fékk RÁS  kr. 200.000 að  gjöf frá Bókaútgáfunni Codex á árinu.

Þá hefur RÁS tekið að sér að vinna verkefni fyrir dómsmála- og mannréttindaráðuneytið í tvígang, en stofnunin sem slík fær ákveðið hlutfall í endurgreiðslum ráðuneytisins vegna þeirrar vinnu, sbr. nánar verksamninga þar um.

Styrkur sem RÁS fékk ásamt félagsráðgjafardeild og Menntavísindasviði úr sjóði Bents og Margretar Sch. Thorsteinssonar vegna eineltisrannsóknar hefur verið lagður inn á reikning RÁS, kr. 2.200.000 með sérstakt verkefnisnúmer.

Útgjöld RÁS hafa fram til þessa fyrst og fremst verið launagreiðslur til ÞL og veitingar í tengslum við stjórnarfundi.  Þannig séð er staða RÁS ágæt um þessar mundir.

Vegna umræðu um fjármál RÁS upplýsti ÞL að hún hefði átt fund með lögfræðingi á aðalskrifstofu HÍ, Ingibjörgu Halldórsdóttur, þar sem rædd var framkvæmd nýrra verklagsreglna um greiðslur vegna aukastarfa innan HÍ, sem kostuð eru af öðru fé en opinberum fjárveitngum til HÍ.  Þessar reglur voru samþykktar af háskólaráði 3. júní sl. í kjölfar skýrslu Ríkisendurskoðunar frá febrúar 2010 um verktakagreiðslur við Háskóla Íslands. Þessar reglur fela m.a. í sér að í stað þess að greiða „verktaka“ þóknun í formi verktakagreiðslu skal greiða fyrir vinnuna í formi yfirvinnugreiðslu, sbr. nánar framangreindar verklagsreglur.

5.   Önnur mál

Ákveðið var að næstu stjórnarfundir yrðu, þriðjudaginn 12. október kl. 11.30-13.00 og fimmtudaginn 9. desember kl. 11.30-13.00. Þessa ákvörðun þarf að kynna sérstaklega fyrir EKS sem boðaði forföll á stjórnarfundinn, sbr. hér að ofan.

Fundi slitið kl. 13.00.

Hrefna Friðriksdóttir  sign)

Guðrún Kristinsdóttir(sign)             Sigrún Júlíusdóttir  (sign)           Vilhjálmur Árnason  (sign)

 

 

Fundargerð 7. fundar

Ár 2010, 12.október, var haldinn 7. fundur stjórnar Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni (RÁS). Fundurinn var haldinn í fundarherbergi á 4. hæð í Lögbergi og hófst kl. 11.40 Viðstödd voru; Hrefna Friðriksdóttir, Erla Kolbrún Svavarsdóttir, Guðrún Kristinsdóttir, Sigrún Júlíusdóttir, Vilhjálmur Árnason og Þórhildur Líndal sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist helst.

 

1.   Fundargerð frá 2. september 2010 lögð fram og undirrituð

 

2.  Staða mála á skrifstofu RÁS:

Farið var yfir neðangreind málefni, sem unnið er að um þessar mundir:

SAMRÆÐAN um FJÖLSKYLDUMÁLEFNI, 17. sept. sl.- niðurstöður o.fl.  HF og ÞL fóru yfir gang mála, en  fundarmenn voru sammála um að vel hefði tekist til á þessari SAMRÆÐU og talað var um að RÁS myndi nota þetta fyrirkomulag síðar, e.t.v. annað hvert ár. ÞL greindi frá því að Markaðs- og samskiptasvið væri tilbúið að veita aðstoð við að koma niðurstöðum SAMRÆÐUNNAR á framfæri, sem frétt, á heimasíðu HÍ og í Tímariti Háskóla Íslands. ÞL hefur þegar leitað eftir því að fá í hendur hugleiðingar forsetanna, sem þar mættu, en Jón Örn Guðbjartsson sviðsstjóri hefur tekið að sér að vinna efni upp úr hugleiðingum og niðurstöðum „borðanna“ fimm, en þær hafa þegar hafa borist RÁS.  ÞL mun vera í samband við JÖG vegna þessa.

Heiðursrit Ármanns Snævarr, skilafrestur greina var 1. okt. sl. Þó nokkrir hafa óskað eftir frekari fresti, en gera má ráð fyrir að u.þ.b. 10-15 greinar verði ritrýndar en aðrar ritstýrðar. Samtals má búast við að greinar í ritinu verði um 25. Greint var frá því að ritnefndin myndi hittast 18. okt. nk. og í framhaldi af þeim fundi væri ætlunin að leita til væntanlegra ritrýna. Þá hefst söfnun í Tabulu in Honorem einnig í næstu viku. Bókaútgáfan Codex mun annast þá söfnun en í samráði við RÁS. Kanna þarf hvort BC getur auglýst væntanlegt rit í fjölmiðlum, Fréttablaðinu og gefið kost á skráningu á Tabulu og forkaupsrétti.  Þá var einnig rætt um að auglýsa á vefnum: HI-starf, á póstlistum sviða sem og fagfélaga, s.s. félagsráðgjafa, hjúkrunarfólks, sálfræðinga og leikskólakennara.  Þá voru Siðfræðistofnun og Félag prófessora einnig nefnd sem tenglar. SJ velti því  upp hvort ekki ætti að vera höfundakynning í framangreindu riti og sömuleiðis hvort ekki ætti að vera útdráttur á ensku með hverri grein eða eingöngu með þeim greinum sem ritrýndar verða.  Afstaða til þessa verður tekin endanlega af ritnefndinni.

Eineltisrannsóknin, gerð var grein fyrir framvindunni.  Nú hafa þrír styrkhafar verið valdir af verkefnisstjórninni, þ.e. úr lagadeild, félagsráðgjafardeild og af Menntavísindasviði. Hinn 28. október verður fyrsti fundur þeirrar stjórnar og styrkhafanna til að fara yfir verkefnið í heild sinni. Í framhaldi af þeim fundi verður kaffisamsæti með Bent og Margreti Sch. en styrkurinn til eineltisrannsóknarinnar kemur úr sjóði við þau kennd. Auk þeirra hjóna, verkefnisstjórnar og styrkhafa verður sjóðsstjórninni boðið til þessa hófs, þar sem m.a. verða veittar viðurkenningar til styrkhafanna. Stjórn RÁS var upplýst um að stefnt væri að halda ráðstefnu þar sem niðurstöður rannsóknarinnar yrðu  kynntar opinberlega, haustið sept/okt. 2011.

Heimasíða RÁS, ÞL gerði það að tillögu sinni að næsta  „stór“ verkefni hjá RÁS væri að útbúa gerð heimasíðu stofnunarinnar. Eins og málum er nú háttað þá er að finna tengil um stofnunina á heimasíðu lagadeildar HÍ. Auk heimasíðunnar þarf að útbúa bréfsefni og glærur með logo f. RÁS og  nafnspjald fyrir ÞL. Þegar hefur verið leitað aðstoðar hjá Markaðs- og samskiptasviði HÍ vegna þessa og ýmsar gagnlegar ábendingar fengist í þeim efnum.  Leitað verður til auglýsingarstofu sem MogSsvið er í sambandi við og óskað eftir  kostnaðaráætlun vegna þessa. Stjórnin samþykkti þessa tillögu

3.  Önnur mál

HF gerði að umtalsefni fyrirliggjandi frumvarp til barnalaga, þar sem m.a. er að finna ákvæði um að dómari geti dæmt sameiginlega forsjá með börnum. Nú mun sú staða komin upp að nýr dómsmála- og mannréttindaráðherra er ósammála þessu ákvæði frumvarpsins og hefur í hyggju að breyta því, þar til rannsókn liggur fyrir sem sýnir fram á að  að þetta sé barni/börnum fyrir bestu. Því hafi þeirri hugmynd skotið upp hvort RÁS eigi, jafnvel í samstarfi við ráðuneytið, að fá hingað til lands danskan fræðimann (eða fleiri), sem vinnur að þessari rannsókn til að gera nánari grein fyrir henni. Ef af yrði þá myndi málstofa sem þessi verða haldin í desember nk.

Næsti fundur ákveðinn miðvikudaginn 9. des. kl. 11.30.

Fundi slitið kl. 12.40.

Hrefna Friðriksdóttir (sign)

Erla Kolbrún Sævarsdóttir   (sign)     Guðrún Kristinsdóttir (sign)         

Sigrún Júlíusdóttir  (sign)          Vilhjálmur Árnason

 

 

 

Fundargerð  8. fundar

Ár 2010, 9.desember, var haldinn 8. fundur stjórnar Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni (RÁS). Fundurinn var haldinn í fundarherbergi á 4. hæð í Lögbergi og hófst kl. 11.40 Viðstaddar voru; Hrefna Friðriksdóttir, Erla Kolbrún Svavarsdóttir, Guðrún Kristinsdóttir, Sigrún Júlíusdóttir. Vilhjálmur Árnason hafði boðað forföll. Auk þess sat fundinn Þórhildur Líndal sem ritaði fundargerð.

Þetta gerðist helst:

 

 1. 1.       Fundargerð 7. fundar lögð fram. Samþykkt og undirrituð af viðstöddum stjórnarmönnum. 

 

 1. 2.       Fjarhagsstaða RÁS samkvæmt hreyfingarlista, dags. 22.11.2010. Yfirlitið lagt fram.

 

 1.  ÞL gerði grein fyrir stöðunni miðað við janúar til og með október 2010. Tekjur ársins 2010 voru samtals kr. 4.372.000. Útgjöld nema samtals  kr. 3.136.906.  Í dag er staðan þessi: Kr. +1.235.094. Líklega má gera má ráð fyrir að afgangur ársins verði kr. + 600.00.  Þá fékk RÁS í samvinnu við Félagsráðgjafardeild og Menntavísindasvið styrk til að rannasaka einelti út frá þremur fagsviðum, en stjórninni hefur áður verið gerð grein fyrir því. Verkáætlun mælir fyrir um hvernig greiðslum á þessum styrk verður varið á árinu 2011.  Um er að ræða kr. 2.2 milljónir en þessi fjárhæð hefur fengið sérstakt nr. á viðfangsnr. RÁS.

 

 1. 3.       Drög að fjárhagsáætlun RÁS fyrir árið 2011 lögð fram til kynningar.

ÞL fór yfir drögin. Áætlunin gerir ráð fyrir að tekjur verði:

3.000.000 kr. framlag frá HÍ ( úr þróunarsjóði rektors),

500.000 kr. framlag frá lagadeild og

 2.200.000 kr. styrkur vegna eineltisrannsóknar, sbr. lið 2.

 

Stjórnarmenn ræddu rekstrargrundvöll RÁS og voru sammála um að leita þyrfti leiða til að fá þennan grundvöll bættan til framtíðar litið,m.a. var rætt um hvort leita ætti styrkja eða samstarfs við hið opinbera, ríki og/eða sveitarfélög, fyrirtæki og/eða frjáls félagasamtök. Alveg sé ljóst að fjárveitingin að frádregnum eineltisstyrkum, kr. 2.500.000 kr., dugar nánast eingöngu fyrir launum og launatengdum gjöldum forstöðumanns í 50% starfi, að viðbættum funda- og námskeiðskostnaði, auglýsingakostnaði vegna einnar málstofu, útgáfu (eineltisskýrslu)  og  ófyrirséðum  kostnaði.

 

Ákveðið að ÞL og HF myndu markvisst vinna að hugmyndum um leiðir á næstu mánuðum.

 

Við þessa fjárhagsumræðu vakti ÞL máls á því að hún hefði á síðustu mánuðum unnið u.þ.b. 50 yfirvinnutíma vegna mikillar vinnu, sem ekki hefur þolað neina bið, meðal annars vegna ákvörðunar um útgáfu Heiðursrits ÁS. Hún hefði ekki fengið greidd laun vegna þessarar aukavinnu og ekki haft möguleika til að taka sér frídaga. Í framhaldi af þessu vék ÞL af fundi og stjórnarmenn ræddu málið.

ÞL tók, 10 mín. síðar, aftur sæti á fundinum og þá óskaði formaður stjórnar að bókað yrði:

„Stjórnin samþykkir að greiða Þórhildi 30 yfirvinnutíma vegna ýmissa verkefna árinu 2010“.

 

4 Staða verkefna –verkefnisáætlun 2011

ÞL gerði grein fyrir stöðu mála varðandi Heiðursrit Ármanns Snævarr 1919-2010, en allar greinar utan einnar (DÞB) eru farnar frá RÁS til Bókaútgáfunnar Codex í prófarkalestur og uppsetningu. Höfundar munu fá próförk sinnar greinar til yfirlestrar áður en ritið fer í prentun. Í ritinu verður- í þessari röð- ljósmynd af ÁS ásamt eiginhandaráritun hans, yfirlit yfir efni ritsins, formáli ásamt mynd af stjórn RÁS, Tabula in Honorem, æviágrip ÁS, minningarorð við útför ÁS eftir dr. Sigurð Árna Þórðarson, kveðjur frá dómsmála- og mannréttindaráðherra, forseta Hæstaréttar og rektor Háskóla Íslands, 22 fræðigreinar eftir 16 lögfræðinga þar af fjóra norræna og að auki níu aðra fræðimenn frá Félagsvísindasviði,Heilbrigðisvísindasviði, Hugvísindasviði og  Menntavísindasviði innan HÍ – eða samtals 25 höfunda. Þá birtist í ritinu skrá yfir höfunda og ritaskrá ÁS.

 

Stjórnin leggur til að ritrýndum og ritstýrðum greinum verði kaflaskipt í Heiðursritinu. ÞL kannar hvaða reglur BC fylgi í þessum efnum. Einnig óskaði stjórnin eftir að ljósmynd frá stofnfundi RÁS í september 2009 yrði birt í ritinu á sama stað og formálinn verður. ÞL mun ganga frá þessu við BC.

 

ÞL upplýsti að BC myndi halda útgáfuteiti 18. febrúar nk., en rit ÁS kemur út 15. s.m. ÞL falið að vera í sambandi við forsvarsmenn BC vegna boðslista í teitið, ættmenni ÁS og stjórnarmenn, en RÁS mun senda út fréttatilkynningu 15. febr. nk. og greina frá útkomu ritsins þar.

 

ÞL greindi jafnframt stjórnarmönnum frá því að hún hefði á deildarfundi lagadeildar  30. nóv. sl. kynnt starfsemi RÁS á árinu 2010, þ.á m. frá væntanlegu heiðursriti, einnig frá fyrirhugaðri þverfræðilegri eineltisrannsókn og styrkveitingu til hennar, Samræðu fræðimanna og háskólanema um fjölskyldumálefni, sem efnt var til 17. sept. sl., opna málstofu um trúnaðarskyldu - tilkynningarskyldu, sem haldin var í samvinnu við Lagastofnun, en þar töluðu Hrefna Friðriksdóttir, Heimir Örn Herbertsson, hrl. og Gunnar Matthíasson, sjúkrahúsprestur og formaður fagráðs kirkjunnar í kynferðisofbeldismálum. Fundarstjóri var ÞL. Þá hafi RÁS sinnt nokkrum þjónustuverkefnum fyrir ráðuneyti,s.s. samningu frv. til breytinga á hjúskaparlögum og nú sé unnið að skýrslu um ættleiðingar á Íslandi. Útbúið hafi verið veftré fyrir sérstaka heimasíðu RÁS en efnisöflun sé að fara í gang. Þá var þess getið að Ármann hefði í lifanda lífi ánafnað RÁS bókakost sinn á sviði fjölskylduréttar og unnið sé að skráningu bókanna um þessar mundir. Þá hafi RÁS einnig fengið peningagjöf frá Bókaútgáfunni Codex þegar hún hóf starfsemi sína og að auki allar útgefnar fræðibækur BC.

 

ÞL kvaðst í lok máls síns á deildarfundinum hafa lagt áherslu á mikilvægi þverfræðilegrar nálgunar rannsóknarverkefna á sviði fjölskyldumála og lýst RÁS fúsa til samstarfs innan lagadeildar sem og á milli ólíkra fræðasviða HÍ ef slíkt hefði í för með sér bættan hag fjölskyldna og barna hér á landi.

 

Stjórnin samþykkti að ÞL útbyggi á grundvelli framkominna ummæla skýrslu yfir starfsemi RÁS árið 2010, sem send yrði til rektors og sviðsforseta/deildarforseta. Í framhaldinu myndu stjórn og hlutaðeigandi eiga saman fund næsta haust.

 

ÞL lagði fram til kynningar frumdrög að framkvæmdaáætlun RÁS ársins 2010. Þar er að finna eftirfarandi þætti: Heimasíða/jan. Rannsóknir/2011. Ráðstefna/sept-okt. Málstofur:Efst á baugi/mars. Útgáfa/okt. Samstarf-kynning/vor. Þessi framkvæmdaáætlun tekur mið af fyrirséðum tekjum ársins 2011.

 

 1. 5.       Önnur mál

HF greindi frá vinnu við skýrslu um ættleiðingarmál fyrir dómsmála- og mannréttindaráðuneytið. Þessi vinna hefði reynst mun meiri en ætlað var í fyrstu en vinnan væri komin á lokastig og skýrslunni yrði skilað til ráðherra fyrir árslok.

HF lagði til tvo stjórnarfundi á næstu mánuðum, þ.e.: 7. apríl og 22. september, kl. 11.30. Var það samþykkt að viðstöddum stjórnarmönnum.

Fundi slitið 13.30.

 

Hrefna Friðriksdóttir (sign)

Erla K. Svavarsdóttir (sign) Guðrún Kristinsdóttir (sign)  Sigrún Júlíusdóttir (sign)

.

Fundargerð  9. fundar

Ár 2011, 28. apríl  var haldinn 9. fundur stjórnar Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni (RÁS). Fundurinn var haldinn í fundarherbergi á 4. hæð í Lögbergi og hófst kl. 11.40. Viðstödd voru; Hrefna Friðriksdóttir, Erla Kolbrún Svavarsdóttir, Guðrún Kristinsdóttir, Sigrún Júlíusdóttir, Vilhjálmur Árnason og Þórhildur Líndal sem ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist helst.

 1. Fundargerð 8. fundar var lögð fram.

Samþykkt og undirrituð.

 

 1. Staða mál.

ÞL fór í stuttu máli yfir það sem unnið hefur verið að á skrifstofu stofnunarinnar frá síðasta fundi 9. desember 2010.

 

 1.  Heiðursritið

Í því sambandi var rifjað upp að hinn 15. febr. sl. var boðað til óformlegs fundar stjórnar RÁS þar sem Heiðursrit Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni kom út þann dag, nákvæmlega ári frá andláti Ármanns. Dreifingu þess til áskrifenda er lokið eftir því sem best er vitað, en það er Bókaútgáfan Codex sem hefur séð um hana. Rætt var um hvort ekki væri ástæða til að kanna hvort unnt væri að selja bókina á ódýrara verði (6-7 þús.) t.d. í Bóksölu stúdenta og stíla þar með m.a. inn á gjafavörumarkað, s.s. útskriftargjafir.  Í því sambandi var nefnt að útbúið yrði veggspjald t.d. með mynd  af ÁS og að sérstök áhersla væri á fjölskyldumálefnin, auk þess mætti nefna nöfn einhverra höfunda í dæmaskyni. EKS nefndi hönnuðinn Hildigunni Gunnarsdóttur og SJúl nefndi Elísabetu Karlsdóttur, sem miðlað gæti upplýsingum. Þá var einnig rætt um að fá auglýsingu/frétt í Tímarit lögfræðinga og/eða Úlfljót, tímarit laganema.SJÚL nefndi kynningu í Tímarit félagsráðgjafa.

 

 1.  Skýrsla um ættleiðingarmál

ÞL sagði frá útgáfu innanríkisráðuneytisins á ofangreindri skýrslu en gerður var samningur við RÁS um samningu hennar. Stjórn RÁS fól síðan Hrefnu Friðriksdóttur verkefnið. Haldið var málþing í Iðnó á vegum ráðuneytisins í mars sl. þar sem skýrslan var rækilega kynnt. HF flutti þar inngangserindi en fleiri tóku þátt auk ráðherra.

 

 1.  Árbók Háskóla Íslands

Beiðni barst frá skrifstofu rektors, þar sem óskað var eftir  greinargerð/kafla (500 orð) um starfsemi RÁS á liðnu ári,  2010.  ÞL sendi umbeðna samantekt  7. mars sl til MDB skrifstofustjóra á rektorsskrifstofu.

 

 1. Málstofa RÁS miðvikudaginn 6. apríl 2011

Málstofan bar yfirskriftina: „Skóli fyrir alla“ – fá allir að njóta sín? Erindi fluttu: Brynhildur Flóvenz, dósent við lagadeild HÍ, Anna Kristín Sigurðardóttir, lektor í skólaþróun við Menntavísindasvið HÍ og Haraldur Finnsson fv. skólastjóri. Fundarstjóri var Þórhildur Líndal.  Þetta málþing, sem haldið var í hádeginu á ofangreindum degi, sóttu rúmlega 30 manns. Erindin -útdrættir þeirra-  verða birtir á heimasíðu RÁS.

 

 1. Eineltisrannsóknin

ÞL sagði frá framvindu mála, en nú er komið að skilum MAritgerða (5. maí) hjá meistranemunum og þá hefst vinnan við hina sameiginlegu skýrslu, en að henni koma bæði nemarnir og leiðbeinendur ritgerðanna, sem og Brynja Bragadóttir auk ÞL.

Greint var frá því að skýrslan yrði gefin út í prentuðu formi og kynnt sérstaklega á ráðstefnu sem haldin verður væntanlega um mánaðamótin sept/okt.

 1. Þátttaka í Lagadeginum

Til fróðleiks var þess getið að tveir fulltrúar úr stjórn RÁS eru með innlegg á      Lagadeginum svokallaða, sem haldinn verður 6. maí nk. HF tekur þátt í dagskrárlið sem nefnist Á rökstólum þar sem viðfangsefnið verður: Er það réttur allra að eignast barn? VÁ tekur þátt í sameiginlegri málstofu: Bókstafur laganna - uppgjör við lagahyggjuna. Fram kom að Lagadagurinn er ekki lokuð ráðstefna en greiða þarf þátttökugjald.

 

 1. Næstu verkefni
 2. Málþing/ráðstefna um heimild til að dæma sameiginlega forsjá – erlendur fyrirlesari

HF fór yfir þessa hugmynd sem rædd hefur verið áður í stjórninni. Hugmyndin snýst um  að  fá  Mai-Heide Ottosen danskan fræðimann, sem er að ljúka við rannsókn á framkvæmd ákvæða danskra laga um ofangreinda heimild (frá 2007), til að koma til landsins í haust og kynna niðurstöðurnar. Tilefnið er m.a  væntanlegt frumvarp innanríkisráðherra til breytinga á ákvæðum  íslenskra barnalaga.  SJÚL ítrekaði jákvæða afstöðu til samstarfs. Ákveðið að hún, HF og ÞL hittist á næstu vikum til að fara nánar yfir fyrirkomulagið. HF nefndi einnig  sem hugmynd að fá ætti sálfræðing til að vera með erindi á sömu ráðstefnu. Fram kom hjá GKr. að hún þekkti fræðimann, Elisabeth Nasman við Uppsalaháskóla sem hefði skoðað sænsku lögin um þetta efni en niðurstöður hennar yrðu kynntar á fundi í Noregi í lok maí. GKr mun senda ÞL nánari upplýsingar um þetta.

 

 1. Ný rannsóknarverkefni – hugmyndir reifaðar – fjáröflun

Stjórnarmenn hvattir til að skoða hugsanleg þverfræðileg verkefni í nafni stofnunarinnar.  ÞL  taldi mikilvægt að fundið yrði nýtt rannsóknarverkefni fyrir næsta ár þegar eineltisrannsókninni yrði lokið. Varðandi fjáröflun gat HF þess að líkur bentu til þess að lagadeild tæki RÁS fjárhagslega yfir, en það væri ekki útrætt mál. HF og ÞL munu óska eftir fundi með deildarforseta lagadeildar á næstu vikum til að kanna hvað tæki við þegar tilraunatímabili RÁS lýkur í nóvember 2012. 

Fundi slitið kl. 13.20.

Hrefna Friðriksóttir (sign)

Erla Kolbrún Svavarsdóttir (sign) Guðrún Kristinsdóttir (sign ) Sigrún Júlíusdóttir  

Vilhjálmur Árnason  (sign)

 

 

 

 

Fundargerð 10. fundar

Ár 2011, þriðjudaginn 28. september   var haldinn 10. fundur stjórnar Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni (RÁS). Fundurinn var haldinn í fundarherbergi á 3. hæð í Gimli og hófst kl. 11.40. Viðstödd voru; Hrefna Friðriksdóttir, Erla Kolbrún Svavarsdóttir, Guðrún Kristinsdóttir, Vilhjálmur Árnason og  Þórhildur Líndal sem ritaði fundargerð. Sigrún Júlíusdóttir  boðaði forföll.

 

Þetta gerðist helst.

1.      

Fundargerð 9. fundar var lögð fram.

Samþykkt og undirrituð.

 

2.      

Málþing RÁS og RBF um sameiginlega forsjá- heimid dómara.

HF greindi frá að gengið hefði verið frá því að RÁS og RBF héldu sameiginlegt málþing um ofangreint efni. Fræðimaðurinn Mai Heide Ottosen hafi fallist á að koma hingað til lands 14. okt. og halda fyrirlestur varðandi niðurstöður rannsóknar á framkvæmd  dönsku barnalaganna um heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá. Auk þessa aðalfyrirlesara á málþinginu  yrðu stutt erindifrá henni um frv. til nýrra barnalaga og SJúl  um niðurstöður nýrrar rannsóknar hennar. Jafnframt hafi  innanríkisráðherra fallist á að vera með stutt innlegg í lok málþingsins. Málþingið verði haldið í stofu 104 á Háskólatorgi milli kl. 14 og 16 föstudaginn 14. okt.nkr. Stjórnarmenn lýsti sig ánægða með þetta fyrirhugaða málþing.

Talsverð umræða varð um hugsanlega ráðstefnu að ári um sama umfjöllunarefni en út frá breiðu/þverfaglegu  sjónarhorni. Stjórnarmenn voru sammála um að ákveða yrði þetta fyrr en seinna þar sem óskað yrði eftir 2-3 erlendum fyrirlesurum frá Norðurlöndum. Sænski dómarinn Mats Sjösten hefur þegar gefið vilyrði fyrir þátttöku. Þetta yrði „íslensk“ ráðstefna en ekki alþjóðleg.

 

3.      

Þverfræðileg rannsókn á einelti meðal barna. Niðurstöður -málþing og útgáfa skýrslu

ÞL fór yfir stöðu mála, en frágangur sameiginlegrar skýrslu, sem mun hafa  að geyma  6 kafla auk inngangs er kominn á lokastig. Stefnt er því að halda málþing þar sem niðurstöður verða kynntar í byrjun nóvember nk. Ætlunin er að skýrslan verði gefin út í formi nýrrar ritaraðar RÁS og yrði hún birt í 1. tölublaði þess. Stjórnarmenn lýstu ánægju sinni með gang mála.

 

4.      

Ritröð Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr  - form og markmið

ÞL vakti, í framhaldi af 3. dagskrarlið,  máls á því að ekki lægi  formlega fyrir hvert væri markmið stjórnar RÁS með útgáfu ritaraðarinnar, né heldur lægi fyrir skoðun þeirra á formi og útliit ritaraðarinnar. Á fundinum lágu frammi - til hliðsjónar -  rit frá Lagastofnun og Mannréttindastofnun. Stjórnarmenn hölluðust frekar að riti Lagastofnunar varðandi form og útlit. VÁ lagði einnig fram  til sýnis rit Siðfræðistofnunar, sem er ýmist ritrýnt eða ekki. Þá eru ritstjórar þess ekki endilega þeir sömu frá einu riti til annars.

 

Stjórnarmenn voru sammála um. að ritaröð RÁS væri ætlað að vera vettvangur til að koma á framfæri ýmsu efni sem RÁS vildi vekja opinbera athygli á.  Ritin yrðu ýmist ritrýnd eða ekki. Það færi eftir efnisumfjöllun hverju sinni. HF ræddi um kápu ritaraðarinnar og hugmyndina um að hafa mynd af fjölskyldumeðlimum á öllum aldri gegnum gangandi, en lit kápunnar mismunandi frá einu riti til annars. Þá var rætt um heiti á ritaröðinn. GKr .nefndi orðið RÁSIR með vísun til skammstöfunar stofnunarinnar. Ýmsar aðrar hugmyndir komu fram s.s. Fjölskyldan og samtíminn eða FjölRás. EKS nefndi nafn Hildigunnar  Gunnarsdóttur í sambandi við útlitshönnun. HF og ÞL var falið að ákveða nafn og útlit ritaraðarinnar.

 

5.      

Hugmyndir stjórnarmanna um þverfræðilegar rannsóknir undir forystu RÁS

Í umræðu um þennan dagskrárlið komu fram þó nokkrar hugmyndir af ýmsum toga. EKS ræddi um ofbeldi í ýmsum myndum. GKr. nefndi efnið: fósturbörn og  skólaganga, sem og farsæld barns í fóstri. HF nefndi málsmeðferð - sáttamiðlun og einnig rannsókn á aldursmörkum í lögum, hvort unnt væri að finna einhver rök fyrir tilteknum aldursmörkum varðandi hin ýmsu réttindi barna, lögfræðileg rök sem og siðferðileg rök. GKr nefndi einnig þátttöku barna  í rannsóknum og aldur í því sambandi. Friðhelgi einkalífs barna var nefnt. Kynheilbrigði – mæður undir lögaldri.

 

6.      

Önnur mál

ÞL sagði frá erindi sem borist hefur frá Brynju Dögg Guðmundsdóttur Briem nýútskrifuðum lögfræðingi, þar sem hún spyr hvort hægt sé að fá hlutastarf hjá RÁS  við greinaskrif í tengslum við rannsóknarstarf og ráðstefnur sem haldnar eru á vegum skrifstofunnar. ÞL svaraði henni í sumar á þann veg að ýmislegt væri á döfinni en fjárskortur hamlaði starfseminni og afla þyrfti styrkja í sérstök verkefni. Erindi hennar yrði kynnt fyrir stjórninni á fundi hennar í september.

 

Fallist var á að hafa nafn hennar í huga ef eitthvað glæddist í fjármálum RÁS.

 

Ákveðið var að næsti fundur stjórnar yrði haldinn í byrjun eða um miðjan febrúar 2012. Endanlega ákvörðun um daginn yrði tekin í samráði við stjórnarmenn í upphafi nýárs.

 

Fundi slitið kl. 13.30.

Hrefna Friðriksóttir (sign)

 

Erla Kolbrún Svavarsdóttir   (sign)     Guðrún Kristinsdóttir   (sign)     Vilhjálmur Árnason  (sign)

 

Fundargerð  11. fundar

Ár 2012, miðvikudaginn 2. mai  var haldinn 11. fundur stjórnar Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni (RÁS). Fundurinn var haldinn í fundarherbergi 103 á 1. hæð í Gimli og hófst kl. 11.45. Viðstödd voru þá; Hrefna Friðriksdóttir, Erla Kolbrún Svavarsdóttir, Guðrún Kristinsdóttir, Sigrún Júlíusdóttir og Þórhildur Líndal sem ritaði fundargerð. Vilhjálmur Árnason mætti kl 11.55.

Þetta gerðist helst.

 1. Fundargerð 10. fundar var lögð fram.

Samþykkt og undirrituð af stjórnarmönnum.

 

 1. Málþing RÁS og RBF um sameiginlega forsjá- heimid dómara.

HF greindi frá að gengið hefði verið frá því að RÁS og RBF héldu sameiginlegt málþing um ofangreint efni. Fræðimaðurinn Mai Heide Ottosen hafi fallist á að koma hingað til lands 14. okt. og halda fyrirlestur varðandi niðurstöður rannsóknar á framkvæmd  dönsku barnalaganna um heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá. Auk þessa aðalfyrirlesara á málþinginu  yrðu stutt erindi frá henni um frv. til nýrra barnalaga og SJúl  um niðurstöður nýrrar rannsóknar hennar. Jafnframt hafi  innanríkisráðherra fallist á að vera með stutt innlegg í lok málþingsins. Málþingið verði haldið í stofu 104 á Háskólatorgi milli kl. 14 og 16 föstudaginn 14. okt. nk. Stjórnarmenn lýstu sig ánægða með þetta fyrirhugaða málþing.

Talsverð umræða varð um hugsanlega ráðstefnu að ári um sama umfjöllunarefni en út frá breiðu/þverfaglegu  sjónarhorni. Stjórnarmenn voru sammála um að ákveða yrði þetta fyrr en seinna þar sem óskað yrði eftir 2-3 erlendum fyrirlesurum frá Norðurlöndum. Sænski dómarinn Mats Sjösten hefur þegar gefið vilyrði fyrir þátttöku. Þetta yrði þó „íslensk“ ráðstefna en ekki alþjóðleg.

 

 1. Þverfræðileg rannsókn á einelti meðal barna. Niðurstöður - málþing og útgáfa skýrslu.

ÞL fór yfir stöðu mála, en frágangur sameiginlegrar skýrslu, sem mun hafa  að geyma  6 kafla auk inngangs er kominn á lokastig. Stefnt er því að halda málþing þar sem niðurstöður verða kynntar í byrjun nóvember nk.  Ætlunin er að skýrslan verði gefin út í formi nýrrar ritraðar RÁS og yrði hún birt í 1. hefti þess. Stjórnarmenn lýstu ánægju sinni með gang mála.

 

 1. Ritröð Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr  - form og markmið

ÞL vakti, í framhaldi af 3. dagskrarlið,  máls á því að ekki lægi  formlega fyrir hvert væri markmið stjórnar RÁS með útgáfu ritraðarinnar, né heldur lægi fyrir skoðun þeirra á formi og útliti ritraðarinnar. Á fundinum lágu frammi - til hliðsjónar -  rit frá Lagastofnun og Mannréttindastofnun. Stjórnarmenn hölluðust frekar að riti Lagastofnunar varðandi form og útlit. VÁ lagði einnig fram  til sýnis rit Siðfræðistofnunar, sem er ýmist ritrýnt eða ekki. Þá eru ritstjórar þess ekki endilega þeir sömu frá einu riti til annars.

 

Stjórnarmenn voru sammála um að ritröð RÁS væri ætlað að vera vettvangur til að koma á framfæri ýmsu efni sem RÁS vildi vekja opinbera athygli á.  Ritin yrðu ýmist ritrýnd eða ekki. Það færi eftir efnisumfjöllun hverju sinni. HF ræddi um kápu ritraðarinnar og hugmyndina um að hafa mynd af fjölskyldumeðlimum á öllum aldri gegnum gangandi, en lit kápunnar mismunandi frá einu riti til annars. Þá var rætt um heiti á ritaröðinn. GKr. nefndi orðið RÁSIR með vísun til skammstöfunar stofnunarinnar. Ýmsar aðrar hugmyndir komu fram s.s. Fjölskyldan og samtíminn eða FjölRás. EKS nefndi nafn Hildigunnar  Gunnarsdóttur í sambandi við útlitshönnun. HF og ÞL var falið að ákveða nafn og útlit ritraðarinnar.

 

 1. Hugmyndir stjórnarmanna um þverfræðilegar rannsóknir undir forystu RÁS

Í umræðu um þennan dagskrárlið komu fram þó nokkrar hugmyndir af ýmsum toga. EKS ræddi um ofbeldi í ýmsum myndum. GKr. nefndi efnið: fósturbörn og  skólaganga, sem og farsæld barns í fóstri. HF nefndi málsmeðferð - sáttamiðlun og einnig rannsókn á aldursmörkum í lögum, hvort unnt væri að finna einhver rök fyrir tilteknum aldursmörkum varðandi hin ýmsu réttindi barna, lögfræðileg rök sem og siðferðileg rök. GKr. nefndi einnig þátttöku barna  í rannsóknum og aldur í því sambandi. Friðhelgi einkalífs barna var nefnt.  Kynheilbrigði – mæður undir lögaldri.

 

 1. Önnur mál

ÞL sagði frá erindi sem borist hefur frá Brynju Dögg Guðmundsdóttur Briem nýútskrifuðum lögfræðingi, þar sem hún spyr hvort hægt sé að fá hlutastarf hjá RÁS  við greinaskrif í tengslum við rannsóknarstarf og ráðstefnur sem haldnar eru á vegum skrifstofunnar. ÞL svaraði henni í sumar á þann veg að ýmislegt væri á döfinni en fjárskortur hamlaði starfseminni og afla þyrfti styrkja í sérstök verkefni. Erindi hennar yrði kynnt fyrir stjórninni á fundi hennar í september.

 

Fallist var á að hafa nafn hennar í huga ef eitthvað glæddist í fjármálum  RÁS.

 

Ákveðið var að næsti fundur stjórnar yrði haldinn í byrjun eða um miðjan febrúar 2012. Endanlega ákvörðun um daginn yrði tekin í samráði við stjórnarmenn í upphafi nýárs.

 

Fundi slitið kl. 13.30.

Hrefna Friðriksdóttir

Erla Kolbrún Svavarsdóttir    Guðrún Kristinsdóttir Sigrún Júlíusdóttir Vilhjálmur Árnason

 

Fundargerð  12. fundar

Ár 2012, föstudaginn 14. desember var haldinn 12. fundur stjórnar Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni (RÁS). Fundurinn fór fram í fundarherbergi 103 á 1. hæð í Gimli og hófst kl. 12.00. Viðstödd voru: Hrefna Friðriksdóttir, Erla Kolbrún Svavarsdóttir, Gunnar E. Finnbogason, Sigrún Júlíusdóttir. Vilhjálmur Árnason.  Þórhildur Líndal ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist helst.

 

 1. Fundargerð 11. fundar var lögð fram.

Fundargerðin var samþykkt og undirrituð af öllum stjórnarmönnum nema GEF en hann tók sæti í stjórn RÁS eftir að síðasti fundur var haldinn.

 

 1. Breytingar á stjórn RÁS

ÞL greindi frá því að með bréfi frá rektor HÍ, dags. 5. október sl., hafi verið tilkynnt að skipuð hafi verið ný stjórn RÁS til þriggja ára eða til 30. september 2015, sbr. 5. gr. reglna um stofnunina. Í þeirri stjórn eiga sæti. Hrefna Friðriksdóttir, dósent við Lagadeild, formaður, tilnefnd af Lagadeild. Erla K. Svavarsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild, tilnefnd af Heilbrigðisvísindasviði. Gunnar E. Finnbogason, prófessor við Kennaradeild, tilnefndur af Menntavísindasviði.  Sigrún Júlíusdóttir, prófessor við Félagsráðgjafardeild, tilnefnd af Félagsráðgjafardeild og Vilhjálmur Árnason, prófessor við Sagnfræði- og heimspekideild, tilnefndur af Hugvísindasviði.

Gunnar var boðinn sérstaklega velkominn til starfa og um leið voru Guðrúnu Kristinsdóttur, prófessor við Menntavísindasvið, sem gekk úr stjórninni, þökkuð störf hennar síðustu þrjú ár.  Lagt var fram bréf frá GKr.,  dags. 1. nóvember sl., þar sem hún þakkar samstarfið í fyrstu stjórn RÁS og óskar stofnuninni alls hins besta í framtíðinni.

 

 1. Stiklað á stóru um starfsemi RÁS frá síðasta stjórnarfundi.

Fyrirhuguð rannsókn á sjálfræði barna innan heilbrigðisþjónustunnar: ÞL fór í stuttu máli yfir vinnu við undirbúning fyrirhugaðrar þverfræðilegrar rannsóknar um réttindi barna innan heilbrigðisþjónustunnar.  Fundað hefur verið  með forstöðumanni Siðfræði-stofnunar og einnig með Landlækni um hugsanlega aðkomu/samvinnu  við rannsóknina. Umsókn um styrk til rannsóknarinnar var send til Rannsóknasjóðs HÍ og fengust kr. 800.000 úr þeim sjóði.  Einnig var sótt um í Fræðasjóð Úlfljóts. Sá styrkur fékkst ekki, þar sem gert er ráð fyrir að verkefni/rannsókn ljúki á sama ári og sótt er um styrkinn.  Gert er ráð fyrir að umræddri rannsókn ljúki ekki fyrr en á árinu 2014.

 

Ljóst er að víða þarf að leita styrkja til að unnt verði að hefja þessa rannsókn og var velferðarráðuneytið nefnt í því sambandi.

 

Norræn ráðstefna í Árósum:  Í lok ágúst sl. sóttu ÞL og HF norræna ráðstefnu um rétt ólögráða sjúklinga, sem haldin var í Háskólanum í Arósum, þar var fjöldi áhugaverðra fyrirlestra fluttur .  Þær fóru á eigin vegum á ráðstefnuna þannig að útgjöld RÁS voru engin vegna þessarar ferðar.

 

Ráðstefna um breytingar á barnalögum:  Undirbúningsvinna vegna ráðstefnunnar: Hvað er nýtt-hvað er framundan? Ráðstefna um breytingar á barnalögum, undirbúning að gildistöku og framkvæmd laganna, reyndist mjög tímafrek. Ráðstefnan, sem RÁS boðaði til, 8. nóvember sl., var haldin á Radisson SAS hótelinu, í samstarfi við RBF og innanríkisráðuneytið.   Aðalfyrirlesarar voru Hanne Söndergaard Jensen félagsráðgjafi og sérfræðingur í málefnum skilnaðarbarna, frá Danmörku og Mats Sjösten, dómari frá Varbergs tingsrätt í Svíþjóð.  Umsókn var send til Letterstedtska sjóðsins í Svíþjóð vegna komu hinna norrænu fræðimanna og fékkst umbeðinn styrkur vegna ferða og dvalar þeirra hér á landi. Ráðstefnan var mjög vel sótt en þátttakendur voru á annað hundrað og komu víða að úr samfélaginu.  Innanríkisráðherra flutti ávarp og þá voru HF og SJúl. einnig með erindi, að loknum fyrirlestrum norrænu gestanna.  Auk þess voru flutt fjögur stutt erindi en ráðstefnunni lauk með pallborði og í því sátu fimm sérfræðingar í málefnum barna.  Góður rómur var gerður að þessari ráðstefnu, en nokkru áður hafði Alþingi samþykkt að gildistaka hinna nýju barnalaga yrði 1. janúar 2013 en ekki 1. júlí s.á., eins og breytingartillagan hljóðaði.

 

Hugsanlegt samstarf RÁS og innanríkisráðuneytis v. barnalaga: ÞL og HF áttu fund með starfsmanni innanríkisráðuneytisins og deildarstjóra hjá Sýslumanninum í Reykjvík vegna hugsanlegs samstarfs í kjölfar lögfestingar barnalaga. Ekkert var ákveðið á þeim fundi enda á þeim tímapunkti ekki ljóst hvenær frumvarpið yrði að lögum og hvort  nægilegt fjármagn fengist til að hrinda því í framkvæmd.

 

Ársskýrsla RÁS: ÞL tók saman og sendi skýrslu um starfsemi RÁS árið 2011 til birtingar í Árbók HÍ. Þessi samantekt er birt á heimasíðu RÁS.

Kynningarstarf:  ÞL greindi frá því að vinna við gerð heimasíðu RÁS væri í fullum gangi og stefnt væri að því að opna hana formlega í janúar 2013 en samhliða því yrði haldin opin málstofa í Lögbergi, þar sem fjallaði yrði um fjölskyldumálefni út frá sjónarhóli, lögfræði, siðfræði, heilbrigðisvísindum og menntavísindum. Um tæknilegu hlið heimasíðunnar sá Halldóra Þorláksdóttir, f.h. RÁS en ÞL sá að öðru leyti um gerð síðunnar.

 1. Fjármál  og rekstur RÁS

Eins og reifað var á síðasta fundi stjórnar RÁS, sbr. 5.tl fundargerðar, var þess farið á leit við rektor HÍ, bæði bréflega og munnlega, að hún beitti sér fyrir því að háskólinn (afmælissjóður HÍ) legði Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni, til fjármuni, 5 millj. kr. árlega næstu 5 árin, þ.e. 2012-2017, til að tryggja áframhaldandi rekstur stofnunarinnar.  Sú leið var ekki farin heldur varð niðurstaðan sú að gerður var samstarfsamningur milli Lagadeildar HÍ og RÁS, þar sem.m.a. kemur fram að deildin taki að sér að greiða laun forstöðumanns stofnunarinnar í hálfu starfi.  Jafnframt leggur deildin stofnuninni til - eftir sem áður - 500 þús. kr. til að mæta tilfallandi kostnaði vegna verkefna sem falla að hlutverki stofnunarinnar.

 

 1. Drög að framkvæmdaáætlun RÁS árið 2013

ÞL greindi frá eftirfarandi hugmyndum:

a.Þverfræðileg rannsókn um stöðu barna innan heilbrigðiskerfisins með áherslu á sjálfræði þeirra til þátttöku og ákvarðanatöku.

b. Norræn ráðstefna um staðgöngumæðrun í samstarfi við Siðfræðistofnun

c. Námstefna fyrir dómara um barnalögin í samstarfi við Dómstólaráð og Lagastofnun HÍ

d.Námskeið um sáttameðferð og gerð bæklinga (3) um ýmisákvæði (hugtök) barnalaga í samstarfi við innanríkisráðuneytið, sbr. nánar 6. tl. fundargerðar 11. fundar.

e. Málstofur (1-2) um það sem er „efst á baugi“ í þjóðfélaginu og varðar fjölskylduna.

f. Námskeið um Barnasáttmálann í samstarfi, ráðuneyti/ Unicef o.fl.

g. Samstarfsnet innan háskóla og utan (stjórnsýsla) um málefni fjölskyldunnar á breiðum grundvelli.

 

Umræða fór fram meðal stjórnarmanna um fyrirliggjandi drög. Meðal annars kom fram að hugsanlegir samstarfsaðilar, sbr. a.lið, gætu verið velferðarráðuneytið (fjárframlag) og Landlæknisembættið ( starfsmenn). Einnig mætti huga að annarri rannsókn ef ekki fengist nægilegir styrkir til þeirrar rannsóknar sem nefnd er í a.lið og í því sambandi vísað til 6. tl. í fundargerð 11. fundar.

 

Þá kom einnig fram að Menntavísindasvið (GEF) gæti tekið þátt í námskeiðum, sbr. f. lið og e.t.v. væri hægt að leita til Velferðarsjóðs barna eftir styrkjum. Rætt var um hvort fara ætti í samstarf við EHÍ en ekkert var ákveðið í þeim efnum.

Fundi slitið kl. 13.30.

Hrefna Friðriksdóttir (sign)

Erla Kolbrún Svavarsdóttir (sign)    Gunnar E. Finnbogason  (sign)  Sigrún Júlíusdóttir  (sign)  Vilhjálmur Árnason  (sign)

 

 

Fundargerð 13. fundar

Ár 2013, miðvikudaginn 15. maí var haldinn 13. fundur stjórnar Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni (RÁS). Fundurinn fór fram í Lögbergi, fundarherbergi á 4. hæð og hófst kl. 11.30. Viðstödd voru; Hrefna Friðriksdóttir, Erla Kolbrún Svavarsdóttir, Gunnar E. Finnbogason, Sigrún Júlíusdóttir og Vilhjálmur Árnason. Þórhildur Líndal ritaði fundargerð.

Þetta gerðist helst.

1.  Fundargerð 12. fundar var lögð fram.

    Samþykkt og undirrituð af stjórnarmönnum.

 

2.  Skýrsla RÁS 2012 lögð fram til kynningar

    Að venju var þess óskað af hálfu aðalskrifstofu HÍ að RÁS gerði skriflega grein fyrir starfsemi stofnunarinnar á síðasta ári. ÞL tók greinargerðina saman og mun hún birtist á vef HI ásamt ársskýrslum annarra stofnana HÍ og fagsviða. Í kjölfarið verður hún birt á vef RÁS.

 

3. Fjölskyldan – hin þverfræðilega sýn og opnun heimasíðu RÁS

ÞL greindi frá málstofu á vegum RÁS sem bar ofangreint heiti og haldin var í Lögbergi 13. mars 2013. Þar fluttu örstutt erindi, Erla Kolbrún Svavarsdóttir og Sigrún Júlíusdóttir í stjórn RÁS, Salvör Nordal forstöðumaður Siðfræðistofnunar og Þórhildur Líndal forstöðumaður RÁS. Gunnar E. Finnbogason fulltrúi Menntavísindasviðs var erlendis. Hrefna Friðriksdóttir formaður stjórnar RÁS stýrði fundi. Nokkrar umræður sköpuðust í kjölfar erindanna, en í lok málstofunnar var heimasíða RÁS - ras.hi.is - opnuð formlega. ÞL gerði í stuttu máli grein fyrir þessari nýju heimasíðu og hvaða upplýsingar hún hefði að geyma. Þá er RÁS einnig að finna á Fésbókinni. Halldóra Þorláksdóttir sá um tæknilegu hlið heimasíðunnar, en ÞL sá um annað, s.s. samantekt efnis og ljósmyndir.

4. Samstarfssamningur RÁS og Verkefnisstjórnar um vitundarvakningu um kynferðisofbeldi gegn börnum (f.h. innanríkisráðuneytis, mennta- og menningarmálaráðuneytis og velferðarráðuneytis) - sérstök verkefnisstjórn

HF gerði grein fyrir aðdraganda að þessum samstarfsamningi, en hann var undirritaður af ÞL fyrir hönd RÁS 26. apríl 2013. Samkvæmt honum er svo um samið að RÁS taki að sér að útbúa fræðsluefni um meðferð kynferðisbrota gegn börnum í réttarvörslukerfinu, sbr. nánar 3. gr. samningsins og að halda námskeið sem byggir á því efni, sbr. nánar 4. gr. hans. Skipuð verður sérstök verkefnisstjórn, einn fulltrúi frá RÁS, einn fulltrúi frá Verkefnisstjórn um Vitundarvakningu (Vitundarvakningin) og einn sameiginlegur fulltrúa þessara tveggja. Verkefnisstjórnin velur og semur við þá sérfræðinga sem fengir verða til að vinna ofangreint verkefni. Lögð er áhersla á að fá sérfræðinga af ólíkum sviðum með ríka þekkingu á kynferðisbrotamálum. RÁS heldur utan um starf verkefnisstjórnarinnar. Vegna ritunar og hönnunar fræðsluefnis greiðir innanríkisráðuneytið til RÁS kr. 2.500.000.  Samningurinn gildir til  31. des. 2014.

Stjórnarmenn lýsti sig ánægða með gerð þessa samstarfssamnings og nokkur umræða varð um mikilvægi þess að upplýsa almenning, sem og þá sem starfa að þessum málum um gang þessara mála „í kerfinu“. Margskonar efni hefur verið gefið út hér á landi varðandi þennan málaflokk og mikilvægt að safna því saman og sömuleiðis að leita út fyrir landsteinana að góðum fyrirmyndum, eins og til Norðurlanda, Bretlands, Bandaríkjanna og Kanada. Fyrir liggur að fræðsluefninu ber að skila í rafrænu formi en frekari upplýsingar um útfærslu þess bíður verkefnisstjórnarinnar. Þó er alveg víst að til verkefnisins þarf að ráða færustu sérfræðinga og af fleiri en einu fagsviði.

HF gerði að tillögu sinni að ÞL yrði fulltrúi RÁS í þessari verkefnisstjórn. Sú tillaga var samþykkt samhljóða. Tillaga hafði komi fram um að sameiginlegi fulltrúinn, sbr. hér að ofan, yrði Róbert R. Spanó. Stjórnarmenn lýstu sig sömuleiðis samþykka þeirri tillögu. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hver verður fulltrúi Vitundarvakningarinnar í verkefnisstjórninni.

 

5. Rannsóknarverkefni RÁS 2012

    a. Sjálfræði barna innan heilbrigðisþjónustunnar. Um er að ræða þverfræðilega rannsókn Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni í samstarfi við Lagadeild (Hrefna Friðriksdóttir, dósent), Heilbrigðisvísindasvið (Erla K. Svavarsdóttir, prófessor) og Hugvísindasvið (Salvör Nordal,forstöðumaður Siðfræðistofnunar). Um þessar mundir stendur yfir „leit“ að meistaranemum á ofangreindum sviðum til að vinna að rannsókninni (meistararitgerð) hver út frá sínu fræðilega sjónarhorni, sbr. nánar umsókn um styrk í Rannsóknasjóð HÍ, en þegar hefur fengist styrkur að fjárhæð kr. 800.000 til rannsóknarinnar. Kanna þarf með öflun frekari styrkja til verkefnisins. Þess er að vænta að unnt verði að auglýsa eftir meistaranemum til þátttöku í þessari rannsókn síðla sumars. Gert er ráð fyrir að hver þeirra muni fá styrk að fjárhæð 200-300 þús. kr. vegna vinnuframlags við samningu hins sameiginlegan kafla, sem byggir á meistararitgerðunum þremur, um þverfræðilegar niðurstöður rannsóknarinnar. Stefnt er að birtingu hans í riti Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni á næsta ári, 2014.

b. Framhaldsrannsókn á einelti innan sveitarfélaga. Í niðurstöðum rannsóknar um einelti meðal barna á Íslandi, sem RÁS ásamt Félagsráðgjafardeild, Lagadeild og Menntavísindasviði stóð að, og kynntar voru í lok ársins 2011, var að finna ýmsar tillögur um, hvað mætti betur fara varðandi meðferð eineltismála, t.d. hjá sveitarstjórnum. Í kjölfar fundar ÞL með Guðnýju Eydal, prófessor við Félagsráðgjafardeild var ákveðið að kanna hvort styrkur fengist úr Styrktarsjóði Bents og Margaretar Sch. Thorsteinsson til að vinna að nýrri (framhalds-) rannsókn á einelti, þar sem áhrif eineltis á fjölskyldu þolanda yrðu m.a. tekin til skoðunar. Rannsóknin yrði með svipuðu sniði og sú fyrri, þ.e. meistaranemar tækju þátt í henni hver á sínu fræðasviði. Að þessari umsókn komu ÞL, dr. Brynja Bragadóttir vinnusálfræðingur og Steinunn Hrafnsdóttir dósent við Félagsráðgjafardeild HÍ. Enn er ekki vitað hvort styrkur fæst til þessa verkefnis, en ákveðið hefur verið að leita einnig styrkja annars staðar frá, m.a. fyrirtækjum.

 

 6. Námskeið um innleiðingu Barnasáttmálans (þverfræðilegt).

HF gat þess að á fyrri stjórnarfundum hafi komið til tals, í kjölfar lögleiðingar samnings SÞ um réttindi barnsins, hvort það væri ekki kjörið verkefni fyrir RÁS að útbúa námskeið um innleiðingu hans hér á landi. Stjórnarmenn lýstu sig hlynnta þeirri aðkomu. ÞL upplýsti að hún hefði fengið á sinn fund Hjördísi Þórðardóttur sem er að ljúka meistaranámi í Sviþjóð, en hún hefur tekið að sér að vinna að innleiðingu samningsins ( á sviði skólamála) í Garðabæ. Þá upplýsti ÞL að HÞ hefði verið ráðin til Unicef frá og með ágúst á þessu ári til að vinna að innleiðingunni.

ÞL gat þess jafnframt að hún hefði átt fundi með Stefáni Inga Stefánssyni framkvæmdastjóra Unicef á Íslandi í apríl sl. til að kanna með mögulegt samstarf í þessum efnum. Því var vel tekið. Ætlunin er að ræða málin betur þegar HÞ verður komin til starfa hjá þeim. ÞL sagðist jafnframt eiga fund með Hermanni Sæmundssyni skrifstofustjóra í innanríkisráðuneytinu á næstunni.

Stjórnarmenn voru sammála um að þetta væri spennandi verkefni og styðja að haldið verði áfram að vinna að útfærslu þess.

 

7. Nýtt hefti í ritröð RÁS

Fyrsta hefti í ritröðinni kom út haustið 2011: Ábyrgð og aðgerðir – niðurstöður þverfræðilegrar rannsóknar á einelti meðal barna á Íslandi. Nú er það spurningin hvaða hugmyndir eru uppi um næsta hefti í ritröðinni. ÞL hafði hugmyndir um að birta 4-5 bestu (hæstu einkunnir) BAritgerðir um Friðhelgi einkalífs barna, skoðað út frá ýmsum sjónarhornum í næsta hefti. HF taldi að þar sem þær hefðu mjög takmarkað fræðilegt gildi sem  og rannsóknargildi ættu þær ekki heima í riti sem þessu. Stjórnarmenn virtust því sammála. HF taldi brýnt að skoðaðar yrðu ritrýnireglur fyrir ritröðina, en mikilvægt væri að hafa þær til staðar og athuga í hvaða flokk ritröðin fellur innan matskerfisins.

 Í framhaldinu nefndi hún að fróðlegt gæti verið að heyra stjórnarmenn segja frá meistaraverkefnum, sem snerta fjölskyldumálefni, og unnin hafa verið innan þeirra deilda.Ef til vill kæmi til greina að birta greinar upp úr þeim ritgerðum í næsta hefti ritraðarinnar.

Þar sem stjórnarmenn voru tímabundnir varð umræðan um þennan lið minni en ætlað var og engin endanlega niðurstaða fékkst í málið.

Fundi slitið kl. 13.15

Hrefna Friðriksóttir (sign) 

Erla Kolbrún Svavarsdóttir (sign)    Gunnar E. Finnbogason (sign)  Sigrún Júlíusdóttir  (sign) Vilhjálmur Árnason (sign)

 

Fundargerð 14. fundar

Ár 2013, föstudaginn 13. desember var haldinn 14. fundur stjórnar Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni (RÁS). Fundurinn fór fram í, fundarherbergi á Hótel Sögu og hófst kl. 11.45. Viðstödd voru; Hrefna Friðriksdóttir, Erla Kolbrún Svavarsdóttir, Gunnar E. Finnbogason, Sigrún Júlíusdóttir, en Vilhjálmur Árnason var fjarverandi. Þórhildur Líndal ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist helst.

1.  Fundargerð 13. fundar var lögð fram. Samþykkt og undirrituð af viðstöddum stjórnarmönnum.

 

2.  Stiklað á stóru um starfsemi RÁS frá síðasta stjórnarfundi:

*Samstarfssamningur RÁS og Verkefnisstjórnar um vitundarvakningu um kynferðisofbeldi gegn börnum. Samkvæmt samningnum starfar sérstök verkefnisstjórn, sem í eiga sæti ÞL frá RÁS, Kristín Jónsdóttir fulltrúi Vitundarvakningar og Kolbrún Benediktsdóttir, sameiginlegur fulltrúi RÁS og Vitundarvakningar. Stjórn RÁS hafði áður samþykkt Róbert R. Spanó, sem sameiginlegan fulltrúa, en þar sem hann fór til starfa erlendis var Kolbrún Benediksdóttir, saksóknari, fengin til að taka sæti hans.  Hlutverk þessarar verkefnisstjórnar er að velja og semja við sérfræðinga, sem falið verður að semja fræðsluefni, sbr. 3. gr. samningsins.  Á grundvelli þessa ákvað verkefnisstjórnin að boða til samráðsfundar með ýmsum fulltrúum stofnana, sem vinna að meðferð kynferðisbrotamála gegn börnum, til að heyra skoðanir á málinu.  

Í framhaldinu var gengið til samninga við Anni Haugen og Hrefnu Friðriksdóttur til að rita áðurnefnt fræðsluefni um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu, en skiladagur til RÁS er 4. mars 2014.

* Alþjóðleg ráðstefna um tæknifrjóvgun og staðgöngumæðrun. Upphaflega var hugmyndin sú að RÁS tæki beinan þátt í þessari ráðstefnu sem haldin var í Reykjavík í lok ágúst 2013. Það varð ekki úr. Þar sem ÞL þótti mikilvægt að halda umræðu um þessi mál áfram hér á landi sendi hún hugmyndir sínar um hugsanlegt framhald málsins til stjórnarmanna RÁS, sbr. tölvupóst 31. júlí, enda bjóði þetta viðfangsefni upp á þverfræðilegt samstarf á ýmsa vegu. Stjórnarmenn tóku almennt vel í hugmyndirnar og RBF og Siðfræðistofnun lýstu yfir vilja til samstarfs. HF á sæti í starfshópi, sem ætlað er að semja frumvarp til laga um staðgöngumæðrun.  Hún hafði hugmyndir um samstarf stofnananna við starfshópinn.  Úr varð að forstöðumenn RBF, Siðfræðistofnunar og RÁS sendu starfshópnum bréf með tölvupósti, dags. 4. október 2013, til að kanna viðhorf starfshópsins til þverfræðilegs samstarfs við fyrrgreindar stofnanir við HÍ og fá umræðu um helstu grundvallaratriði sem starfshópurinn hefði tekið afstöðu til. Í stuttu máli var svar starfshópins á þann veg að hópurinn sæi sér ekki fært að taka beinan þátt í samstarfi eins og boðið var upp á í nefndu bréfi.

Fram komi í máli HF að starfshópurinn væri búinn að senda ráðherra skýrslu um framvindu mála hjá hópnum. Þá væri von á norrænum sérfræðingum hingað til lands, sem myndu hitta starfshópinn eftir áramótin.

Þessu verkefni er því frestað þar til munnleg skýrsla ráðherra á þingi hefur verið flutt og/ eða frumvarp um staðgöngumæðrun lagt fram á vorþingi.

* Framhaldsrannsókn á einelti innan sveitarfélaga. Sótt var um styrk til rannsóknarinnar í sjóð Bents og Margaretar Sch. Thorsteinssonar en hann fékkst ekki. Leitað var styrkja hjá nokkrum fyrirtækjum en það var tregt.

Ákveðið að hætta við að gera þessa rannsókn að sinni vegna fjárskorts, en stjórnarmenn voru sammála því að rannsóknarefnið væri brýnt.  

*Rannsóknarverkefnið: Staða barna innan heilbrigðisþjónustunnar.  Um er að ræða þverfræðilega rannsókn Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni í samstarfi við Lagadeild (Hrefna Friðriksdóttir, dósent), Heilbrigðisvísindasvið (Erla K. Svavarsdóttir,(prófessor) og Hugvísinda-svið (Salvör Nordal,forstöðumaður Siðfræði-stofnunar).  Styrkir voru auglýstir á vef Háskóla Íslands fyrir þrjá meistaranema við HÍ, hver að fjárhæð kr.250 þús. Þessir nemar hlutu styrkina: Aðalheiður D. Matthíasdóttir, siðfræði, Alma Rún R. Thorarensen, lögfræði og Thelma Björk Árnadóttir, hjúkrunarfræði. Verkefnisstjórn, EKS,HF,SN og ÞL hafa þegar haldið einn fund með nemunum þar sem farið var yfir verklag og markmið rannsóknarinnar. Einnig hefur verið lögð fram skriflega verk- og tímaáæltun, en stefnt er að verkefninu ljúki haustið 2014.

* Innleiðing samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr.19/2013. ÞL hefur verið í munnlegu og skriflegu sambandi við innanríkisráðuneytið með jöfnu millibili síðan í sumar með fyrirhugað samstarf um kynningu og fræðslu á samningnum í kjölfar lögleiðingar hans. Engin bitastæð svör hafa borist og svo virðist sem þessi mál séu ekki á forgangslista ráðuneytisins.

Ef RÁS ætlar að koma að þessu verkefni þarf aðkoman greinilega að vera með öðrum hætti en í gegnum ráðuneytið, sjá nánar framkvæmdaáætlun RÁS 2014

*Heimasíða og Fésbók RÁS. Samkvæmt tölum sem sendar eru vikulega til RÁS vegna heimsókna á Fésbókarsíðu RÁS hefur heimasíðan hlotið þó nokkra kynningu enda eru „ vinir“ RÁS orðnir 110 að tölu.  Hámarki náðu heimsóknir á síðuna þegar styrkir til meistaranema voru auglýstir og þegar birt var hverjir hefðu hlotið þá.

Í framhaldi af þessu varð nokkur umræða um mikilvægi þess að safna rannsóknum um fjölskylduna á einn stað, en ÞL gat þess að þegar á árinu 2009 hafi hún sent bréf til allra sviða og stofnana innan HÍ og óskað upplýsinga um slíkar rannsóknir innan þeirra vébanda. Fátt var um svör á þeim tíma.

 

3. Fjármál RÁS 2013-2014

Í upphafi þessa dagskrárliðs gat ÞL þess, að sér hefði komið í opnu skjöldu þegar hún hafi rætt við fjármálastjóra Félagsvísindasvið örfáum dögum áður, að mikill halli væri á rekstri RÁS. Ekki varð annað séð af hreyfingarlista en að RÁS stæði vel.  Við nánari athugun kom í ljós að skýringin á þessum halla er sú að enn hefur ekki verið gengið formlega frá samstarfssamningi RÁS og Lagadeildar, af hálfu forseta lagadeildar og formanns stjórnar RÁS.

Kostnaður vegna launa forstöðumanns er því færður til frádráttar á reikning RÁS án þess að sérstakt framlag komi á móti – nema þær tekjur sem RÁS hefur aflað sem sértekna,  og þannig myndast hallinn.  Samkvæmt drögum að samstarfssamningi átti gildistími samningsins að vera 3 ár frá 1. nóvember 2012-2015.  

Að sögn HF stjórnarformanns hefur hún þegar rætt við deildarforseta um að gengið verði formlega frá fyrrnefndum samningi.  Núna mun liggja fyrir að lagadeildin hefur samþykkt að greiða laun forstöðumanns fyrir árið 2014, en þá stendur útaf greiðsla lagadeildar til RÁS vegna launagreiðslan frá 1. nóv. 2012 - 31. des. 2013 eða samtals 14 mánuðir. Það er stjórnarformanns og deildarforseta að ná niðurstöðu um þetta.

Að sögn HF er ekki gert ráð fyrir frekari framlögum frá lagadeild til RÁS.  Skilaboðin er þau að RÁS skuli verða sjálfbær frá árinu 2015 – afla styrkja til að halda úti rekstri og sinna þeim verkefnum, sem áskilin eru í reglum um stofnunina nr. 570/2009. ÞL gat þess að 9. gr. reglanna segi m.a. að tekjur stofnunarinnar séu: framlag lagadeildar og félagsvísindasviðs.

Talsverð umræða varð um þennan dagskrárlið, m.a. hvernig unnt yrði að viðhalda starfseminni áfram við breyttar forsendur og hvar væri hægt að leita fanga.  Samfélagsstyrkir fyrirtækja voru meðal annars nefndir í þessu sambandi.

Samþykkt að halda sérstakan fund um breytta fjárhagsstöðu RÁS í marsmánuði á næsta ári.

 

4. Drög að framkvæmdaáætlun. ÞL kynnti drög að framkvæmdaáætlun RÁS árið 2014:  

*Rannsóknir.

Staða barna innan heilbrigðisþjónustunnar, með áherslu á sjálfræði til þátttöku í meðferð og ákvarðanatöku. Niðurstöður liggi fyrir á haustmánuðum

Huga þarf að undirbúningi fyrir næstu þverfræðilegu rannsókn RÁS. Kanna rannsóknarefni, styrkjamöguleika og þátttakendur.

*Útgáfa

Stefnt er að útgáfu rits RÁS um þverfræðilega niðurstöðu rannsóknar á stöðu barna innan heilbrigðisþjónustunnar. Kanna þarf ritrýnireglur til að fá ritið viðurkennt sem ritrýnt af hálfu vísindanefndar. Doktorsnemi í hjúkrunarfræði er e.t.v. í sjónmáli með grein í ritið (EKS). 

Efna til samstarfs við Unicef, umboðsmann barna o.fl, um gerð „námskeiðspakka“  vegna lögleiðingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.

*Málþing/málstofa

Stefnt er á að halda málþing/málstofu um staðgöngumæðrun í samstarfi við RBF og Siðfræðistofnun.

*Námskeið

Námskeið  á grundvelli fræðsluefnis um meðferð kynferðisbrota gegn börnum fyrir hinar ýmsu fagstéttir sem koma að þessum málum – í samstarfi við verkefnisstjórn um Vitundarvakningu.

Kanna með undirbúning að námskeiðum um fjölskylduna frá ólíkum sjónarhornum. Fræðimenn innan HÍ ræða um rannsóknir og fræði „á mannamáli“ – við foreldra/fjölskyldur. Útgangspunkturinn verður: Fjölskyldan (ekki kerfið), þ.e. að horfa  á einstaka málaflokka sem snerta hana á ýmsan hátt ... út frá sjónarhóli fjölskyldunnar. Gengið er út frá því að þátttakendur greiði námskeiðsgjöld.

*Efst á baugi

Efnt skal til málstofu þegar tækifæri gefst vegna umræðna í þjóðfélaginu um málefni fjölskyldunnar.

*Heimasíðan – Fésbókarsíðan

Haldið áfram að þróa og nota þessar síður til kynningar á starfsemi RÁS – jafnvel hugað að stofnun sérstaks hóps sérfræðinga í fjölskyldumálefnum.

 

Fundi slitið kl. 13.25.

 

Hrefna Friðriksóttir (sign) 

Erla Kolbrún Svavarsdóttir (sign)    Gunnar E. Finnbogason (sign)    Sigrún Júlíusdóttir (sign)

 

 

Fundargerð 15. fundar

Ár 2014, mánudaginn 31. mars var haldinn 15. fundur stjórnar Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni (RÁS). Fundurinn fór fram í fundarherbergi á 4. hæð í Lögbergi og hófst kl. 11.45. Viðstödd voru; Erla Kolbrún Svavarsdóttir, Sigrún Júlíusdóttir og Vilhjálmur Árnason. Þórhildur Líndal ritaði fundargerð.

Forföll boðuðu Hrefna Friðrikdóttir og Gunnar E. Finnbogason

 

 

Þetta gerðist helst.

 

1.  Fundargerð 14. fundar var lögð fram.

Fundargerðin hafði verið send til stjórnarmanna fyrir fundinn og óskað eftir athugasemdum ef einhverjar væru. Engar athugasemdir bárust.  Fundargerðin var undirrituð af EKS og SJ, en VÁ var erlendis þegar þegar fundurinn var haldinn í desember sl. Aðrir höfðu boðað forföll.

 

2. Fjármál RÁS.

Til þessa stjórnarfundar hafði verið boðað til að ræða sérstaklega fjármál og stöðu RÁS, en eins og fram kom á fundinum í desember sl. hefur samstarfssamningur milli RÁS og Lagadeildar ekki enn verið undirritaður. Forstöðumanni var ekki kunnugt um það fyrr en örfráum dögum fyrir síðasta fund stjórnar, sbr. nánar fundargerð 14. fundar.

Þar sem stjórnarformaðurinn HF boðaði forföll á þennan stjórnarfund var ekki vitað með vissu hvort gengið hafi verið frá samstarfssamningnum fyrir fundinn eða hvort til stæði að undirrita hann. Þá er þeirri spurningu einnig ósvarað hvort von sé á framlagi frá Félagsvísindasviði, sbr. nánar reglur nr. 570/2009.

ÞL gerði grein fyrir stöðu fjármála eins og hún sér hana út frá sínum bæjardyrum. Hún kvaðst hafa átt samband við ýmsar stofnanir innan HÍ varðandi öflun tekna til reksturs þeirra. Svo  virðist sem ýmsar leiðir og mismunandi séu farnar innan hinna ólíku stofnana. Sumar byggja að mestu leyti/alfarið á rannsóknarfé, aðrar gera samninga við opinberar stofnanir um einhverja samvinnu og svo leita einhverjar til fyrirtækja. Þá skiptir mótframlagið til stofnana miklu máli. Fram komu í máli VÁ að hann hafi skilið það svo að innan HÍ gildi það almennt að  námsbrautir hefðu umsjón með kennslu en stofnanir með umsjón rannsókna. Talsverð umræða skapaðist um þessi mál og m.a. var vakin athygli á hlutverki rannsóknastjóra sviðanna, Félagsvísindasviðs og Hugvísindasviðs, Ingibjörgu og Eiríki. Þá var einnig bent á Vísinda- og nýsköpunarsvið HÍ, Halldór Jónsson, sviðsstjóra. Hann gæti m.a. veitt frekari upplýsingar um í hvaða tilvikum stofnun ætti rétt á mótframlagi.

ÞL nefndi nokkrar hugmyndir að þverfræðilegum rannsóknarverkefnum, m.a. kvaðst hún hafa átt fund með Elfu Ýr framkvæmdstjóra Fjölmiðlanefndar en þar á bæ væri áhugi á að rannsaka nokkur álitaefni í samstarfi við RÁS, s.d. hatursumræðu í samfélagsmiðlum og áhrif hennar á fjölskyldulíf.  Í þessu sambandi gat ÞL þess að unnt væri að leita til stórfyrirtækja en sum þeirra eru með yfirlýsta stefnu um samfélagslega ábyrgð, sbr. þátttöku þeirra í Festa,  sem er miðstöð um samfélagsábyrgð, stofnuð í október 2011. Markmið með stofnun miðstöðvarinnar er að leita bestu aðferða fyrir fyrirtæki við innleiðingu á stefnu um samfélagsábyrgð, stuðla að vitundarvakningu um samfélagsábyrgð fyrirtækja og hvetja til rannsókna á viðfangsefninu í samstarfi við háskólasamfélagið.

Þá varpaði EKS því fram, hvort til greina kæmi að stjórn RÁS héldi hugarflugsfund með kennurum lagadeildar - til byrja með - og fá þá til að greina frá rannsóknarverkefnum sínum og í framhaldinu hvort grundvöllur væri að einhvers konar samstarfi/samvinnu við einhverja þeirra.

 ÞL nefndi hvort halda mætti „Vísindadag lögfræðinnar“ sbr. „Vísindadag geðhjúkrunar“ þar sem haldin yrðu 20-25 mín. erindi um lögvísindi og samspil þeirra við fjölskylduna á breiðum grundvelli.

ÞL kvaðst ætla að fá fund á næstunni með rannsóknastjóra Félagsvísindasviðs og starfsmanni Vísinda- og nýsköpunarsviði HÍ.

 

Fundi slitið kl. 13.10.

 

Erla K. Svavarsdóttir (sign)   Sigrún Júlíusdóttir (sign)  Vilhjálmur Árnason (sign)

 

 

 

Fundargerð 16. fundar

Ár 2014, miðvikudaginn 28. maí, var haldinn 16. fundur stjórnar Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni (RÁS). Fundurinn fór fram í fundarherbergi á 4. hæð í Lögbergi og hófst kl. 11.50. Viðstödd voru;  Hrefna Friðriksdóttir, Erla Kolbrún Svavarsdóttir, Sigrún Júlíusdóttir og Vilhjálmur Árnason. Þórhildur Líndal ritaði fundargerð.

Forföll boðaði Gunnar E. Finnbogason.

 

Þetta gerðist helst.

 

1. Fundargerð 15. fundar var lögð fram.

Fundargerðin var samþykkt og undirrituð af þremur stjórnarmönnum, sem sátu síðasta fund stjórnarinnar, en aðrir höfðu boðað forföll á þann fund.

 

2. Fjármál og fjárhagsstaða RÁS.

HF lagði fram og kynnti nýjan samstarfssamning milli Lagadeildar HÍ og Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni, sem undirritaður var fyrr í dag af deildarforseta lagadeildar og stjórnarformanni RÁS.  Gildistími þessa samnings er frá 1. nóvember 2012 til 1. júlí 2015.  Í samningnum kemur m.a. fram  að stofnunin muni á næstu þremur árum leggja sérstaka áherslu á markvissa sókn í innlenda samkeppnissjóði í samstarfi við fræðimenn deildarinnar, sbr. nánar 3. gr. samningsins.

Stjórnarmenn lýstu yfir ánægju með þennan samning og í framhaldinu spunnust talsverðar umræður um möguleika RÁS til öflunar styrkja í innanlandssjóði.

Í því sambandi voru nefndir RANNÍS, Rannsóknasjóður Háskóla Íslands (RHÍ).  EKS nefndi einnig forvarnasjóð landlæknisembættisins. 

Þá var rætt um mótframlag til deilda vegna styrkja úr þessum sjóðum og voru fundarmenn nokkuð vissir um að mótframlag fengist vegna styrkja úr RANNÍS og RHÍ og jafnvel öðrum sjóðum innan HÍ, þar eð um samkeppnissjóði væri að ræða.  Einnig fór fram umræða um sókn í erlenda sjóði og í því sambandi voru nefndir COST (sem útdeilir ferðastyrkjum) og NORDFORSK.

ÞL gat þess að hún myndi eiga fund með Ingibjörgu I. Ómarsdóttur rannsóknastjóra Félagsvísindasviðs næsta mánudag og ætlunin væri að fara nákvæmlega yfir alla kosti í stöðunni.

Ítrekað var að Eiríkur rannsóknastjóri á Hugvísindasviði væri gjörkunnugur RANNÍS sem fyrrv. starfsmaður þess sjóðs. ÞL mun hafa samband við hann í kjölfarið.

HF varpaði fram áður framkominni hugmynd um hugsanlega „samstarfssamninga“ RÁS við ráðuneyti og opinberar stofnanir og þá fyrst og fremst með í huga að hlutaðeigandi væri í mun að „halda lífi“ í RÁS, sem rannsóknastofnun í fjölskyldumálum.

ÞL gat þess að hún hefði sett ýmsar hugmyndir á blað um hugsanlegar rannsóknir á vegum RÁS. Hún nefndi m.a. þverfræðilega rannsókn: Atvinnulífið og fjölskyldan: Rannsaka stjórnunarhætti kvenna, sem forsvarsmanna fyrirtækja annars vegar, og hins vegar karla, með hliðsjón af starfsmanna- og fjölskyldustefnu fyrirtækisins.  Skiptir máli hvort stjórnandinn er kvenkyns eða karlkyns þegar kemur að þörfum fjölskyldna starfsmanna? Í hverju er sá munur fólginn - hvað býr að baki?  Einnig nefndi ÞL þverfræðilega rannsókn: Líffæragjöf - sjálfsákvörðunarréttur einstaklings - mál fjölskyldunnar? (Hvað segir löggjöfin? Eru breytingar nauðsynlegar, ætlað samþykki - ætluð neitun? Hve algengar eru líffæratökur og um hvaða líffæri er að ræða? Hvernig hefur tekist til hér á landi við líffæraígræðslur?  Á hvaða aldri eru líffæragjafar/líffæraþegar? Hvað með þá sem eru yngri en 18 ára? Hvaða siðferðilegu álitaefni koma upp við líffæragjöf, s.s. sjálfsákvörðunarréttur einstaklings, er þetta ef til vill mál allrar fjölskyldunnar?)

Þá kom til umræðu hugsanleg rannsókn á „fjölmiðlum og fjölskyldu“ en Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar nefndi þennan möguleika við ÞL fyrir nokkru síðan.  ÞL hefur verið í sambandi við Elfu Ýr forstöðumann Fjölmiðlanefndar og er fundur þeirrafyrirhugaður 10. júní nk. Fram kom ábendingu frá SJúl að félagsráðgjafarsjónarhornið gæti átt vel við í þessu tilviki. ÞL mun hafa samband við Elísabetu Karlsdóttur hjá RBF vegna þessa.

Í sambandi við þessa hugsanlegu rannsókn mætti velta fyrir sér að hún yrði í tveimur þrepum, fyrsta þrepið yrði rannsókn út frá t.d þremur sjónarhornum meistaranema og á seinna þrepinu væri unnið út frá niðurstöðum rannsóknar á fyrra þrepinu.  Farið enn frekar á dýptina í tilteknu rannsóknarefni.

Á fundinum kom fram að ekki væri nauðsynlegt að stjórn RÁS samþykkti sérstaklega rannsóknir, sem hugmyndin væri að framkvæma, en talið rétt að forstöðumaður kynnti slíkt þegar ákvörðun hefði verið tekin - eða styrkur veittur-  eins og venjan hefur verið hingað til.

SJúl nefndi líka að forvitnilegt væri að skoða réttarstöðu barna í ljósi trúarbragða. Hún sagði frá bókinni:  Mitt eigið Harmageddon eftir Önnu Heiðu Pálsdóttur,  en lestur þeirrar bókar kveikti þá hugmynd að þetta væri brýnt rannsóknarefni. HF varpaði fram þeirri hugmynd að e.t.v. gætu fulltrúar í stjórn RÁS staðið saman að slíkri rannsókn - þverfræðilega- og sótt um styrk til RANNÍS til framkvæmdar hennar. 

 

Fleira ekki skráð.

 

Næsti fundur ákveðinn í haustbyrjun.

Fundi slitið kl. 13.00.

 

Hrefna Friðriksdóttir (sign)

Erla Kolbrún Svavarsdóttir (sign)      Sigrún Júlíusdóttir (sign)     Vilhjálmur Árnason    (sign)

 

 

Fundargerð 17. fundar

Ár 2014, mánudaginn 22. desember, var haldinn 17. fundur stjórnar Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni (RÁS). Fundurinn fór fram í fundarherbergi á 4. hæð í Lögbergi og hófst kl. 11.50. Viðstödd voru; Hrefna Friðriksdóttir, Gunnar E. Finnbogason, Sigrún Júlíusdóttir og Vilhjálmur Árnason. Þórhildur Líndal ritaði fundargerð. Erla K. Svavarsdóttir mætti kl. 12.15.

 

Þetta gerðist helst.

 

1. Fundargerð 16. fundar var lögð fram. Fundargerðin var samþykkt og undirrituð af viðstöddum stjórnarmönnum.

 

2. Stiklað á stóru í starfsemi RÁS frá síðasta stjórnarfundi.


ÞL greindi frá:

*Rannsóknarverkefnið: Staða barna innan heilbrigðisþjónustunnar með áherslu á sjálfræði til þátttöku og ákvarðanatöku í eigin málum. Upphaflega var stefnt að því að sameiginleg skýrsla um þverfræðilegar niðurstöður þriggja meistaraverkefna lægi fyrir í haustbyrjun. Það gekk ekki eftir og því ákveðið að stefna á útgáfu um miðjan desember. Nú liggur ljóst fyrir að það næst engan veginn þar sem skil á einu meistaraverkefni hefur dregist á langinn, m.a. vegna mikilla veikinda eins styrkþega/MAnema, sem þátt tekur í verkefninu.

ÞL sendi framvinduskýrslu til RHÍ,sem veitt verkefninu styrk, til útskýringar á þessum drætti á lokaskilum.

Fundarmenn voru sammála um að ljúka þyrfti þessu verkefni eins fljótt og kostur væri. 

*Samstarf RÁS og Vitundarvakningar um kynferðislegt, líkamlegt og andlegt ofbeldi gegn börnum um ritun og hönnun fræðslurits.

ÞL greindi frá því að áður en fræðsluritinu var skilað fullbúnu 5. mars. sbr. fyrirliggjandi samtarfssamning, var ákveðið að halda eitt námskeið og bjóða til þess tilteknum fulltrúum og eða fyrirsvarsmönnum stofnana réttarkerfisins, m.a. til að fá fram viðbrögð þeirra við framsetningu efnisins.  Þetta námskeið var haldið 10. apríl og í framhaldinu gengu höfundar þess endanlega frá ritinu og afhentu í pdf formi til RÁS sem aftur afhenti það Vitundarvakningunni í samræmi við fyrrnefndan samning.  Í máli ÞL kom fram að samkomulag hafi orðið milli RÁS/höfunda og Vitundarvakningar um að fræðsluritið yrði einnig gefið út í prentuðu formi og að Vitundarvakningin myndi sjá um greiðslu prentkostnaðar þess.  RÁS tók að sér alla umsýslu með þessu verkefni, s.s. að leita tilboða í prentverkið, fá það ritrýnt, prófarkalesið auk þess að eiga í samskiptum við höfunda, hönnuð og prentsmiðjuna sem var með hagstæðasta tilboðið, ODDA. 

Samhliða þessu hóf RÁS undirbúning að námskeiðum fyrir starfsfólk sem vinnur við meðferð kynferðisbrotamála gegn börnum innan kerfisins.  Námskeiðin voru auglýst víða og voru haldin á Akureyri, Egilsstöðum og í Reykjavík, tvívegis.  Á annað hundrað manns sóttu þau.  Námskeiðsgjaldinu var stillt í hóf – að ósk Vitundarvakningar, en innifalið í því var m.a. fræðsluritið. RÁS samdi sérstaklega við Vitundarvakninguna um þennan verkþátt, þ.e. að námskeiðsgjöldin rynnu alfarið til RÁS.

ÞL gat þess að lokum að þetta verkefni, umsjón og skipulag með prentun og námskeiðshaldi hefði verið það umfangsmikið að forstöðumaður í ½ starfi hefði eingöngu getað sinnt því verkefni samfellt í nokkrar vikur.

HF velti því upp hvernig væri unnt að nýta fræðsluritið og nefndi sem dæmi möguleika á að nota það við kennslu, vera með fleiri námskeið fyrir aðrar fagstéttr og/eða selja það ( með leyfi frá Vitundarvakningu ?) í bókaverslunum. Þá væri spurning um endurprentun á ritinu og hvort ekki þyrfti leyfi frá Vitundarvakningunni – ef til þess kæmi.

Á fundinum var stjórnarmönnum afhent eintök af fræðsluritinu: Kynferðisofbeldi gegn börnum. Málsmeðferð innan réttarkerfisins og réttarvernd barna.

*Þá gat ÞL gat þess að hún, f.h. RÁS, hefði unnið ársskýrslu um starfsemi RÁS á árinu 2013 til birtingar í Árbók HÍ. Ljósriti af skýrsunni var dreift á fundinum.  Jafnframt upplýsti hún að sent hefði verið erindi til Reykjavíkurborgar/Sóleyjar Tómasdóttur forseta borgartjórnar, til Akraneskaupstaðar/Regínu Ástvaldsdóttur bæjarstjóra og Velferðarvaktarinnar/Sivjar Friðleifsdóttur formanns vaktarinnar. Erindin hafi verið ætluð til að kynna starfsemi RÁS og kanna hvort grundvöllur væri fyrir einhverskonar samstarfi um málefni fjölskyldunnar, þ.á m. varðandi  heimilisofbeldi. Lítil viðbrögð hafa orðið við þessum pósti en ÞL mun fylgja honum eftir á nýju ári.

 

 3. Fjármál RÁS 2014-2015

ÞL greindi frá því að hún hefði að undanförnu verið í sambandi við Aðalbjörgu D. Lútersdóttur (ADL) fjármálastjóra Félagsvísindasviðs og Sigrúnu á skrifstofu Lagadeildar, vegna 6,3 millj. kr. millifærslu  á grundvelli endurútreiknings í samræmi nýjan samstarfssamning milli RÁS og Lagadeildar HÍ, dags. í maí 2014. Um mitt næsta ár (2015) verður gerð millifærsla vegna lokaframlags Lagadeildar til RÁS

Samkvæmt fyrstu drögum að  fjárhagsáætlun ársins 2015 virtist sem stefndi í 2,5 millj. kr. halla hjá RÁS. Þar sem forstöðumaður taldi þetta ekki geta staðist miðað við fyrirliggjandi útgjöld og tekjur RÁS var óskað eftir frekari skýringu frá fjármálastjóranum (ADL) og þá sérstaklega eftir sundurliðun ofangreindrar millifærslu í nóv. og des. 2012, allt árið 2013 og níu mánuði ársins 2014 eða til þess dags að greiðslan var millifærð á RÁS frá Lagadeild. Þegar umbeðið yfirlit barst voru ýmsir liðir óljósir og því var aftur fundað.  Á þeim fundi kom m.a. fram að RÁS hefði greitt Lagadeild, árlega, ígildi 120 klukkustunda kennsluafsláttar til formanns stjórnar (árið 2014 kr. 472.500) vegna stjórnunarkostnaðar formannsins ( svokallaðar duldar greiðslur sagði ADL).  Þetta voru upplýsingar sem forstöðumaður hafði ekki nokkra hugmynd um og kom þvi óneitanlega mjög á óvart. Fjármálastjórinn (ADL) sagði þetta ekki tíðkast hjá öðrum formönnum stjórna á Félagsvísindasviði. Fyrir stjórnarfundinn ræddi forstöðumaður þetta við stjórnarformann og  kom henni þetta sömuleiðis á óvart. Sagði þetta ekki mál RÁS heldur Lagadeildar.

Á fundinum í dag kom fram í máli stjórnarformannsins, HF, að þessi greiðsla ætti að vera óviðkomandi RÁS og Lagadeildinni bæri að leggja út fyrir þessum kostnaði. Jafnframt greindi hún frá því  að þegar óskað hafi verið eftir að hún tæki að sér formennsku í stjórn RÁS árið 2009 þá hafi þessi kjör verið kynnt fyrir henni og hún álitið þau viðgangast innan HÍ. Aðrir stjórnarmenn höfðu ekki heyrt af þessu og fullyrtu að þeir nytu ekki slíkra kjara fyrir formannssetu sína í stjórnum stofnana innan sinna vébanda. HF mun taka þetta mál upp við deildarforseta Lagadeildar.

Nánar varðandi drög að fjárhagsáætlun RÁS fyrir árið 2015 þá lítur út fyrir að RÁS standi þokkalega eða líklega með 1, 5 millj. kr. til ráðstöfunar á því ári.  Þó er rétt að taka fram að þegar hefur RÁS skuldbundið sig til greiðslu 375 þús. kr. til styrkþega rannsóknarverkefnisins, sbr. 2. tölul., Um er að ræða seinni hluti styrksins og lokagreiðslu. Inni í nefndri „ráðstöfunarupphæð“ er að finna greiðslur sem verða innheimtar vegna skráningargjalds fjögurra námskeiða, sem haldin voru á vegum RÁS og Vitundarvakningarinnar, sbr. hér að framan, 2. tölul.

Talsverð umræða varð meðal stjórnarmanna um hvernig væri unnt að afla RÁS tekna, en eins  og áður hefur komið fram mun Lagadeildin greiða laun forstöðumanns til 1. júlí nk. Þannig að við þau tímamót reynir alfarið á öflun styrkja til stofnunarinnar, bæði laun og verkefni.

GEG taldi að best væri að komast í norrænt eða alþjóðlegt samstarf þar væri að finna peninga en hér á landi væri lítið eða ekkert að fá. Hann sagði alla stefnumótun varðandi samkeppnisstyrki skorta hérlendis.

Fram kom að RANNÍS-styrkir og RHÍ-styrkir gera almennt ráð fyrir litlum umsýslukostnaði við styrkveitingar sínar til fræðimanna. Styrkurinn rennur að langstærstum hluta til fræðimanns/-a og/eða meistara- og /eða doktorsnema sem vinna undir þeirra handleiðslu. Í kjölfarið var rætt um mótframlög til stofnana/deilda.

EKS nefndi að Norræna  heimskautaráðið  hefði leitað til hjúkrunarfræðideildar eftir samstarfi og fulltrúar frá þeim væru væntanlegir til landsins í mars/apríl til skrafs og ráðagerða. Ef til vill gæti RÁS/Lagadeild eitthvað komið að þessu máli

SJúl sagði að fjármögnun stofnana HÍ væri afar erfið og ekki væri um auðugan garð að gresja í þeim efnum hérlendis. Þetta væri eilífur barningur.

VÁ lýsti hvernig fjármögnun/rekstri Siðfræðistofnunar væri háttað en hun er  „stofa“ innan Hugvísindastofnunar,eins og aðrar stofnanir innan sviðsins, sem m.a. hefur í för með sér að  Hugvísindastofnun er nokkurs konar bakhjarl þeirra þegar hart er í ári og tryggir rekstrargrundvöll þeirra þar til betur árar.

Við frekari umræðu fundarmanna kom í ljós að afar mismunandi er hvernig starfsemi, uppbygging og rekstur rannsóknastofnana er háttað innan hinna ýmsu sviða HÍ og mikill fjölbreytileiki í þeim efnum. Ásta Möller verkefnisstjóri á skrifstofu rektors HÍ hefur undanfarna mánuði unnið að samantekt um allar stofnanir innan HÍ.  Ekki er vitað á þessari stundu hvernig því verki miðar en ÞL mun afla upplýsinga um það.

 

4. Drög að framkvæmdaáætlun RÁS 2015

ÞL gerði stuttlega grein fyrir verkefnum ársins 2015:

1. Rannsókn: Staða barna innan heilbrigðisþjónustunnar -  niðurstöður liggi fyrir á fyrri hluta vormisserins. Stefnt að útgáfu sameiginlegrar skýrslu í riti RÁS samhliða. Afla  þarf styrkja til úgáfu.

2. Rannsókn: „Börn og fjölmiðlar“. Halda áfram undirbúningi rannsóknar í samstarfi við Fjölmiðlanefnd. Kanna með samstarfsaðila/fræðimenn innan ýmissa deilda – fjölmiðlar/ heimspeki /stjórnmál. Afla þarf styrkja. Vormisseri

3. Málþing: Staðgöngumæðrun í samstarfi við Siðfræðistofnun. Snemma á vormisseri.

4. Fræðslurit: Kynna ritið og koma því í sölu innan háskólans og utan.  Tekjuöflun RÁS. Vormisseri.

 

Fleira ekki skráð.

 

Næsti fundur ákveðinn í marsmánuði.

Fundi slitið kl. 13.10.

 

Hrefna Friðriksdóttir (sign)

Erla K. Svavarsdóttir (sign)   Gunnar E. Finnbogason(sign)  Sigrún Júlíusdóttir   (sign)  Vilhjálmur Árnason

 

 

Fundargerð 18. fundar

Ár 2015, mánudaginn 15. júní var haldinn 18. fundur stjórnar Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni (RÁS). Fundurinn fór fram í, fundarherbergi 301 í Gimli og hófst kl. 12.15. Viðstödd voru; Hrefna Friðriksdóttir, Erla Kolbrún Svavarsdóttir, Gunnar E. Finnbogason, Sigrún Júlíusdóttir, en Vilhjálmur Árnason var fjarverandi. Þórhildur Líndal ritaði fundargerð.

 

Þetta gerðist helst:

 

1.  Fundargerð 17. fundar var lögð fram. Samþykkt og undirrituð af stjórnarmönnum að frátöldum VÁ.

 

2.  Samantekt um það helsta í starfsemi RÁS 2009-2015 – sjá fylgiskjal með fundargerð.

ÞL fór yfir samantekt sína um það helsta í starfsemi RÁS. Samantektin skiptist í þrjá þætti:

I fjallar um þau verkefni sem unnin hafa verið á undanförnum árum eða frá því að ÞL tók við sem forstöðumaður RÁS, 1. nóvember 2009 til  15. júní 2015.

II fjallar um þau verkefni sem unnið hefur verið að undanfarin misseri en eru ekki komin til framkvæmda.

III fjallar um ýmsar hugmyndir ÞL sem reifaðar hafa verið á umliðnum árum.

Stjórnarmenn lýstu ánægju sinni með þessa samantekt sem gæfi glögga mynd af starfsemi RÁS undanfarin ár. Formaðurinn greindi stjórnarmönnum frá því að  ÞL  hefði sagt upp starfi sínu sem forstöðumaður frá og með 1. ágúst nk., en ÞL hafði einnig látið stjórnarmenn vita af þessari ákvörðun sinni fyrir fundinn. Stjórnarmenn þökkuðu ÞL störf umliðinna ára.  Í kjölfarið var upplýst að skipunartímabili stjórnar lyki  30. september nk. og þá þyrftu  deildir/svið að tilnefna að nýju fulltrúa í næstu stjórn RÁS, sem skipuð er af háskólaráði, sbr. 5. gr. reglna um Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr um fjölskyldumálefni, nr. 570/2009.

ÞL upplýsti stjórnarmenn  um að fjárhagsstaða RÁS samkvæmt hreyfingarlista, dags. 22. maí 2015, væri að upphæð kr. 4.103.743.  Fyrirséð útgjöld á næstu mánuðum væru laun, launatengd gjöld og uppgjör vegna starfsloka ÞL auk seinni hluti styrkgreiðslna til meistararitgerðarnemanna þriggja sem vinna að þverfræðilegri rannsókn á stöðu barna innan heilbrigðisþjónustunnar.

 

Fleira var ekki skráð.

 

Fundi slitið kl. 13.20.

Hrefna Friðriksdóttir

Erla Kolbrún Svavarsdóttir     Gunnar E. Finnbogason    Sigrún Júlíusdóttir

 

Rannsóknastofnun Ármanns Snævarr sendir árlega frá sér yfirlit yfir starfsemi stofnunarinnar á liðnu almanaksári sem birtist í Árbók Háskóla Íslands.

 

Starfsemi ársins 2013

Starfsemi ársins 2012

Starfsemi ársins 2011

Starfsemi ársins 2010

Starfsemi ársins 2009

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is